Greinar

Helstu áskoranir stjórnenda

Í meðfylgjandi skjali er glærur Helgu Jóhönnu markþjálfa og eiganda Carpe Diem, frá Markþjálfunardeginum 2014.
Áskoranir stjórnenda_Markþjálfunardagurinn2014

Markþjálfun fyrir millistjórnendur, snilldarhugmynd!

Í meðfylgjandi skjali eru glærur Herdísar Pálu markþjálfa, frá Markþjálfunardeginum 2014.
herdispala_Markþjálfunardagurinn2014_net

Ert þú hjá gæða-markþjálfa?

Markþjálfar deila hugsunum með viðskiptavinum sínum, eru samstarfsfélagar, spyrja kröftugra spurninga, ögra, bjóða bein tjáskipti, hlusta og heyra og skapa aukna meðvitund um leið og viðmælandinn tekur ábyrgð á eigin lífi, bæði í leik og starfi.

Á Íslandi hefur undirstaða markþjálfunar verið kennd frá árinu 2006. Árið 2010 var markþjálfun kennd á tveimur stöðum en nú er hægt að læra markþjálfun á þremur stöðum á Íslandi. Námið felur í sér að lágmarki 64 sérhæfðar markþjálfunarstundir (allt að 120 stundum, fer eftir kennsluaðila) og eitt af því sem þátttakandi tekur með sér eftir námið er að hafa náð tökum á helstu grunnkröfum til þess að geta hlotið alþjóðlega vottun hjá alþjóðlegum samtökum eins og t.d. International Coach Federation. Aðilar sem lokið hafa námi frá viðurkenndum kennsluaðila geta kallað sig markþjálfa. Að þessu sögðu er ljóst að þó nokkrir einstaklingar hafa farið í gegnum nám af þessu tagi á Íslandi.

Auk þess að læra markþjálfun á Íslandi er fagið kennt í all flestum löndum heims. Þó nokkrir íslenskir markþjálfar hafa sótt sér menntun erlendis. Ekki er rétt að aðili kalli sig markþjálfa nema hafa undirgengst sérhæft nám í markþjálfunarfræðum. Ekki dugar helgarnámskeið til eða reynsla af ráðgjafastörfum eða kennslu.

Hvað þarf að vera til staðar áður en markþjálfun getur hafist? Án nokkurs vafa skiptir sköpum að traust, trúnaður og gagnkvæm virðing ríki milli aðila, þ.e. markþjálfans og viðskiptavinarins, til þess viðskiptavinurinn geti farið þá leið að skapa aukna meðvitund og taka fulla ábyrgð á eigin lífi.

Með hvaða hugarfari ferð þú inn í markþjálfun? Hvað vilt þú fá út úr því að nýta þér markþjálfun? Því meira sem þú ert tilbúin(n) að skoða sjálfa(n) þig hreinskilnislega, treystir markþjálfanum og ferlinu því meira færð þú út úr markþjálfuninni.

Að finna rétta markþjálfann. Þó nokkur reynsla er komin hér á landi með markþjálfun og nauðsynlegt er að þú treystir markþjálfanum og hafir löngun og vilja til að tjá þig af einlægni við hann, þá veistu að þú er með rétta markþjálfann fyrir þig. Því það er þannig með markþjálfa eins og til dæmis vinnufélagana, það getur verið einn sem hentar manni vel og annar ekki.

Til þess að markþjálfunarsambandið verði sem árangursríkast er nauðsynlegt að vera búinn að gera sér grein fyrir nokkrum atriðum áður en rétti markþjálfinn er fundinn. Til dæmis, hvers leita ég í fari markþjálfans? Skiptir menntun, aldur, kyn og önnur reynsla markþjálfans máli? Með þessa vitneskju og ákvörðun í farteskinu eru líkurnar á að velja rétt mun meiri.

Einkenni gæða-markþjálfa er að markþjálfinn fer eftir grunngildum og  siðareglum markþjálfunar og markmið markþjálfans er árangur viðmælandans.  Hvaða markmið, reynsla eða hugsjón markþjálfinn hefur er ekki umræðuefni samtalanna.

Æfingin skapar meistarann stendur skrifað.
Það er með markþjálfun eins og aðra hæfni og þekkingu sem markþjálfar tileinka sér því meira sem aðferðin er notuð því betri verður viðkomandi í að nota hana viðmælanda sínum til framdráttar. Góður markþjálfi skapar það sem hér að ofan hefur komið fram m.a. með trausti, trúnaði og virðingu strax í fyrsta tíma.
Önnur einkenni um gæði markþjálfans er eiginleiki til þess að hlusta og heyra hvað sagt er og hvað er ekki sagt.  Heyra muninn á milli skynjunar og staðreyndar hjá viðskiptavininum. Heyra hver trúin er hjá viðmælandanum á því sem heldur öllu saman og skapar baráttuna og festuna. Geta strax skapað breytingu og eytt þessari baráttu og festu í óæskilegri hegðun viðmælandans. Þannig nær viðmælandinn mestum árangri.

Að þessu sögðu getur þú hafið varanlega breytingu á þínu lífi með verkfærum markþjálfunar hjá gæða-markþjálfa sem þú treystir, líður vel hjá og ert þá að ná framúrskarandi varanlegum árangri.

Þá er ekkert eftir nema hafa samband við markþjálfa og byrja ferðalagið.

Skrifað af Önnu Maríu Þorvaldsdóttur - Building Your Quality Professional Life - ACC executive coach frá International Coach Federation

Hvernig tryggirðu að þú náir markmiðum þínum í lífi og starfi?

Flest höfum við á einhverjum tímapunkti sett okkur markmið um þann árangur sem við viljum ná.

Flest höfum við líka upplifað það að ná ekki markmiðum okkar, við annað hvort hættum að vinna að þeim, gefumst upp eða hættum að trúa því að þau skipti okkur máli.
Allt of margir falla í þá gryfju að láta utanaðkomandi aðstæður stýra því hver árangurinn er. Þar vantar skuldbindingu og skýra sýn á okkar eigin framlag.

Mín ráð til þín eru einföld en krefjast þess engu að síður að þú skoðir :

Þekktu markmiðið þitt. Hvað þýðir það nákvæmlega og hvenær ertu búinn að ná því?
Skráðu hjá þér markmiðið. Hafðu það skýrt og mælanlegt. Markmið sem segir “ég ætla að fá stöðuhækkun á árinu” eða “ég ætla að lifa betra lífi” segir ekki nema hálfa söguna. Hvað þýðir betra líf fyrir þig? Þú verður að vita hvert þú vilt stefna.

Athugaðu hvað liggur að baki markmiðinu- hvers vegna seturðu þér einmitt þetta markmið- er eitthvað annað sem er mikilvægara fyrir þig?

Hvað þarftu að gera nákvæmlega til að ná markmiðinu?
Þegar þú ert viss um að þetta sé það sem þú vilt ná, ákveddu þá, hvenær þú ert búinn að ná markmiðinu, hafðu skýra sýn á það og mælanlegan árangur.
Hérna skora ég á þig að leyfa þér að fara á flug. Sjáðu þig t.d. fyrir þér í draumastöðunni eftir 6 mánuði eða eitt ár. Hvar ertu? Hverju hefurðu áorkað? Hvernig fórstu að því?

Skráðu þetta hjá þér og þá ertu kominn með aðgerðarplan eða leiðarvísi að þeim árangri sem þig dreymir um. Markmið án aðgerðarplans er bara góð hugmynd.

Trúðu því að þú hafir alla þá hæfileika til að ná markmiði þínu
Stígðu svo skrefið til baka til dagsins í dag og leyfðu þér að upplifa alla þá hæfileika sem þú býrð yfir til að ná þessari sýn. Trúðu því að þú hafir það sem til þarf til að gera breytingar. Ekki bíða eftir að breytingarnar eigi sér stað, taktu stjórnina. Skref fyrir skref í átt að markmiðinu er eina leiðin til að ná því. 

Fagnaðu hverju litli skrefi sem færir þig nær markmiðinu
Þegar á móti blæs er gott að sjá sig fyrir sér í markmiðinu, þess vegna að hafa táknræna mynd í huganum, nú eða uppi á vegg. Þú hefur alla þá hæfileika og getu til að ná markmiði þínu. Ef þú efast, skoðaðu hvað það er sem fær þig til að efast.  Tilfinningin um árangur, sem leiddi til þess að markmiðið var sett í upphafi er oft besti hvatinn, rifjaðu hana upp á leiðinni og mundu að án skuldbindingar af þinni hálfu eru líkurnar á árangri litlar.

Fáðu markþjálfa til að aðstoða þig

Þar ertu kominn með bandamann sem hjálpar þér að koma auga á hindranirnar og yfirstíga þær auk þess sem hann heldur þér við efnið og hefur trú á þér alla leið.

“Ef þú veist ekki hvert þú stefnir, endarðu einhversstaðar annarsstaðar” (Yogi Berra)

Skrifað af Helgu Jóhönnu Oddsdóttur, stjórnendamarkþjálfa og eiganda Carpe Diem markþjálfunar og ráðgjafar. 
- Grein þessi birtist áður í Fréttablaðinu/Lífið í janúar 2013

Speglunarþörf stjórnenda

Starf stjórnandans er í senn krefjandi og ánægjulegt sem aldrei fyrr.  Það getur þó verið einmanalegt þrátt fyrir góð kjör, ábyrgð og athyglina sem því fylgir.  Stjórnir fyrirtækja og stjórnendur eru í auknu mæli farnir að nýta sér markþjálfun sér til styrkingar og álagslosunar.

En hvers vegna ættu stjórnendur að vinna með markþjálfa þegar stjórnendur fyrri tíma komust af án þeirra?
Stjórnendur í dag standa frammi fyrir stærri áskorunum en nokkru sinni fyrr. Markaðir þróast hraðar, tækninni fleygir fram, samkeppnin um hæft starfsfólk er hörð og fjármála- og lagaleg málefni eru flóknari en áður og svo má lengi telja.  Stjórnendur sem telja sig ráða við allt á eigin spýtur eru mun líklegri til kulnunar (e. Burn-out) í starfi, taka verri ákvarðanir eða engar ákvarðanir yfir höfuð og missa þar af dýrmætum viðskiptatækifærum, helst verr á starfsfólki og arðsemin lætur á sér standa.

Starf stjórnandans er einstakt frá mörgum sjónarhornum: enginn innan fyrirtækisins þarf að heyra sannleikann oftar en fær hann um leið sjaldnast frá starfsfólki, enginn er jafn mikið í eldlínu gagnrýninnar þegar illa gengur og enginn annar stendur og fellur með ákvörðunum, jafnvel í vonlausum aðstæðum þar sem lágmörkun skaða er markmiðið.

Stjórnendur sína í auknu mæli einkenni kulnunar í starfi og skv. Harvard Business Review standast tveir af  hverjum fimm nýjum forstjórum ekki kröfurnar sem til þeirra eru gerðar fyrstu 18 mánuðina í starfi. Fram kemur að svo virðst sem mistökin hafi ekkert að gera með hæfileika, þekkingu eða reynslu þeirra, heldur sjálfsmynd og stjórnunarstíl sem er úr takti við nútímann. Rannsóknir sýna að þegar einstaklingar takast á við nýja eða framandi stjórnunarstöðu, séu 40% líkur á því að þeir sýni frammistöðu sem veldur samstarfsfólki vonbrigðum. Eins hefur verið sýnt fram á að 82% nýrra stjórnenda heltast úr lestinni því þeim mistekst að byggja upp traust samband við undirmenn sína og meðstjórnendur.

Stjórnendur fá ekki þá endurgjöf sem þeir þurfa, sannleikann vantar og oftar en ekki treysta undirmenn og jafnvel stjórnarmenn sér ekki til hreinskiptinna samskipta. Það eitt og sér skýrir hluta af þeirri stöðu sem upp kemur. Önnur ástæða er að mikill munur er á því hvernig stjórnendur sjá sjálfa sig og þess hvernig aðrir sjá þá. Þetta er kallað sjálfs-meðvitund (e. self-awareness). Þegar mikill munur er á því hvernig stjórnandi sér sjálfan sig og því hvernig aðrir sjá hann myndast blind svæði sem geta staðið í vegi fyrir árangri. Því meiri munur, því meiri tregða til breytinga og starfsemin verður þyngri í vöfum. Í tilvikum þar sem mikill munur er á því hvernig stjórnendur sjá sig og hvernig aðrir sjá þá er að öllum líkindum erfitt að skapa jákvætt andrúmsloft byggt á trausti og heiðarlegum tjáskiptum.

Eitt einkenni góðra stjórnenda er að starfsfólk þeirra nær árangri.  Þessir stjórnendur eru ákafir og helgaðir starfinu, heiðarlegir, áreiðanlegir og hugrakkir. Í krefjandi umhverfi nútímans þurfa metnaðarfullir stjórnendur trúnaðarmann, bandamann sem þeir geta treyst að segi þeim sannleikann og veiti þeim heiðarlega endurgjöf. Slíkt fá þeir sjaldnast frá starfsfólki og allt of sjaldan frá stjórnarmönnum. Stjórnendur þurfa því tækifæri til að spegla hugmyndir sínar í trúnaði og fullkomnu trausti án þess að hagsmunir þess sem speglar hafi áhrif á niðurstöðu. Markþjálfar eru leynivopn farsælla stjórnenda.

 

Skrifað af Helgu Jóhönnu Oddsdóttur, stjórnendamarkþjálfa og eiganda Carpe Diem markþjálfunar og ráðgjafar.

.

Heilsutengd markþjálfun (Health Coaching)

Coaching eða markþjálfun hefur verið að ryðja sér til rúms hérlendis á síðustu árum, en er nú samt þegar orðin talsvert vinsælli, virtari og almennt þekktari starfs- og fræðigrein víða erlendis, og jafnframt fastur liður í mörgum fyrirtækjum víða um heim í dag.  Coaching greinin er talin hafa fæðst í kringum 1960 og eiga rætur sínar að rekja til íþróttasálfræði (Sports Psychology).

Markþjálfun getur verið skilgreind sem persónuleg, uppbyggileg og fagleg samvinna milli markþjálfa og einstaklings með það að markmiði að veita einstaklingnum hvatningu og stuðning við að færast áfram og sjá mælanlegan árangur og jákvæðar breytingar í lífi sínu, hvort sem markmið einstaklingsins tengist andlegu eða líkamlegu heilbrigði, starfsframa, samböndum eða öðru.
Á þeim tíma sem Coaching hefur vaxið og dafnað hafa margar mismunandi áherslur innan markþjálfunar þróast, td. Business Coaching, Executive Coaching, Life Coaching og Health Coaching.
Í þessari grein verður megin áhersla lögð á Health Coaching eða Heilsutengda markþjálfun, þar sem er upplifun mín er að Stjórnenda- og Fyrirtækjamarkþjálfun hafi fengið meiri umfjöllun og kynningu hérlendis, eflaust vegna þess að margir markþjálfar hér á landi hafa sérhæfingu á því sviði, og því minna verið fjallað um heilbrigðistengda markþjálfun.
Heilsutengda markþjálfun má skilgreina sem ferli eða samvinnu milli Health Coach og einstaklings sem miðar að því að bæta andlega og líkamlega heilsu og almenna vellíðan einstaklingsins, auk þess að stuðla að jafnvægi og bæta lífsgæði viðkomandi.
Heilsutengd markþjálfun er ólík öðrum heilsutengdum aðferðum og inngripum að því leitinu til að einstaklingurinn er hvattur til að finna sjálfur svör við eigin spurningum og lausnir við eigin vandamálum og það kemur því ekki í hlut markþjálfans að ráðleggja einstaklingnum eða segja fyrir verkum, enda benda rannsóknir til þess að fái fólk stuðning við að finna eigin lausnir að þá verði hvatningin meiri og árangurinn betri.
Einstaklingurinn er því í raun talinn sérfræðingurinn í sambandi hans við markþjálfann, enda þekkir enginn líf hans betur en hann sjálfur.
Þetta þýðir þó ekki að markþjálfinn búi ekki yfir ýmsum hæfileikum í sambandinu, en færni hans felst að miklu leyti í því að vera góður í  að hlusta og koma auga á jákvæða eiginleika og styrkleika í fari einstaklingsins, auk þess að styðja hann og hvetja áfram.
Það sem skilur Heilsutengda markþjálfun frá öðrum sérhæfingum innan markþjálfunnar eru meðal annars þau vísindi sem Health Coaching byggir á, en það er talið að heilbrigðistengd markþjálfun hafi meira en 100 sinnum fleiri rannsóknir á bak við sig en allar aðrar tegundir markþjálfunnar til samans, sem er kannski ekki skrítið þar sem markþjálfun þróaðist upprunalega út frá íþróttum og íþróttasálfræði.
Heilbrigðistengd markþjálfun hefur því ríkan vísindalegan bakgrunn, og markþjálfar sem styðjast við rannsóknir og viðurkenndar kenningar í starfi sínu geta hjálpað einstaklingum að ná miklum árangri í tengslum við bætta heilsu, andlega jafnt sem líkamlega.

.

Gætirðu þrefaldað fjárfestinguna?

Að gera hlutina aftur og aftur með sama hætti og búast við nýrri útkomu – jaðrar við geðveiki!

Þetta er haft eftir  Albert Einstein.
Það sem reynist flestum erfiðast þegar þeir læra eitthvað nýtt er að tileinka sér það. Taka út gömlu aðferðina og innleiða nýja. Við erum jafnvel líkleg til að prófa nýju aðferðina fyrst til að byrja með en smátt og smátt renna svo aftur í sama gamla farið og skilja á sama tíma ekkert í því af hverju við náum ekki þeim árangri sem við ætluðum okkur.
Við lærum á námskeiðum aðferðir til breytinga en námskeið geta alla jafna ekki skilið eftir nema um 30% lærdóm þ.e. við tileinkum okkur 30% af því sem við lærðum og notum það hugsanlega (skv. ASTD).
Með því að bæta coaching (markþjálfun) við í kjölfar eða með námskeiði  má ná þessari lærdómsprósentu upp í allt að 89% (skv. ASTD) sem er þreföldun.
Sum námskeið eru reyndar byggð upp með coaching svo sem ýmis Dale Carnegie námskeið.
En af hverju þessi mikli munur?
Við erum ekkert nema vaninn og allt að 90% af okkar daglegu athöfnum eru byggðar á vana. Að vita er ekki sama og að gera og í eðli okkar erum við raunverulega værukær og jafnvel löt. Við leggjum ekki á okkur nema við þurfum þess.
Hvati til breytinga er sprottinn af tvennu. Til að forðast sársauka annarsvegar og til að upplifa ánægju hinsvegar. Það er ekki nóg að langa til að breyta við þurfum að hafa einhverja kveikju. Þessi kveikja getur einmitt verið coaching. Þú færð aðstoð við að tengja lærdóminn inn í veruleikann. Eins og einn viðskiptavinur minn sagði „að fá markþjálfun í kjölfar námskeiðs er eins og að fá einkaþjálfara í ræktinni -það er punkturinn yfir i-ið“.

.

Stundar þú rækt fyrir heilann eins og líkamann?

Margir íslendingar eru orðnir of feitir, borða ekki nógu hollan mat og hreyfa sig ekki nógu mikið.

Það er ósýnileg krafa í samfélaginu að við skulum falla í ákveðið form og helst vera svona og hinsegin í laginu. Hvarvetna er verið að hvetja fólk til þess að hreyfa sig og stunda líkamsrækt og eru öll blöð og netmiðlar uppfull af uppskriftum af hollum mat ásamt heilræðum um hvernig best sé að koma sér af stað og hversu hollt það sé að hreyfa sig, bæði fyrir líkama og sál.

 

Sálin! Einmitt, hana er ekki minnst á að öðru leyti í öllum þessum miðlum, hvernig rækt við getum gert fyrir sálina og heilann?

Þessi ósýnilega krafa um útlit fer mjög misjafnlega í Íslendinga og við náum að tileinka okkur þetta á mismunandi máta. En rétt eins og líkamleg líkamsrækt er mikilvæg heilsu okkar er þá ekki andleg rækt heilanum og okkar andlegu líðan nauðsynleg?

Skoðum þetta aðeins nánar.

Á árum áður fór fólk í messu, sjónvarpsútsendingar voru hvorki á fimmtudögum né í júlí mánuði, áreitið var almennt mun minna og voru þær stundir sem fólk hafði til að velta hlutum fyrir sér, ákveða sín næstu skref og lesa sér til gagns og gamans meiri.

Einhvern veginn upplifi ég að eldri kynslóðir hafi búið við minna áreiti, þó vissulega hafa kröfur um árangur og það að standa sig alltaf verið til staðar.

Áreitið og kröfurnar um árangur eru í dag orðnar mjög miklar og eru fleiri að keppa um hvert starf og eins halda fyrirtæki að sér höndum með aukna skatta og skyldur á herðunum.

Þörfin fyrir að velta hlutunum fyrir sér og ná enn meiri árangri hefur alls ekki minnkað í síkrefjandi umhverfi sem og það að standa sig í starfi og innan veggja heimilisins.

Hvar á að taka tímann frá til að skoða málin?

Dagskrá stjórnanda í dag er kjaftfull og eru skyldurnar svo miklar að þeir gleyma sjálfum sér.

Þeir sem stunda reglulega líkamsrækt í hvað formi sem það nú er líður mun betur líkamlega og virðast sterkari í að takast á við meira en þeir sem ekki hreyfa sig reglulega. En hversu margir taka tíma frá til að rækta heilann, skoða hvert þeir stefna og hvernig hægt er að ná sem mestum árangri? Svo ekki sé talað um að kynnast því og vita hver þeir eru sem persónur og hvert þeir stefna sem einstaklingar en ekki aðeins í hlutverki sínu sem yfirmaður, starfsmaður, foreldri eða maki?

Þeir sem þekkja til markþjálfunar vita hvað þeir fá út úr því að gefa sér reglulega tíma og fá tækifæri til að fara í andlega rækt með markþjálfa, sem er þjálfaður til þess að viðmælandinn fái sem mest út úr og upplifi hámarks árangur.

Markþjálfar gefa viðmælanda sínum 100% athygli, deila hugsunum, eru samstarfsfélagar, spyrja kröftugra spurninga, ögra, bjóða bein tjáskipti, hlusta og heyra, skapa meðvitund og viðmælandinn skapar og tekur sterka ábyrgð á eigin lífi.

Markþjálfun er svar nútímans við öllu áreitinu og kröfunum um að skara fram úr, sýna hagnað og árangur. Því innra með hverjum og einum býr einmitt sá eiginleiki að geta skarað fram úr ef innri hindrunum er ýtt úr vegi.

Ef einstaklingum er gefið tækifæri að styrkja styrkleika sína og að vera meðvitaðir um veikleikana og vita hvað þarf aðstoð við, þá er árangurinn handan við hornið.

Markþjálfun er einmitt verkfærið fyrir heilaræktina.

Skrifað af Önnu Maríu Þorvaldsdóttur - Building Your Quality Professional Life - ACC executive coach frá International Coach Federation

 

 

Tímastjórnun eða orkustjórnun

Ert þú einn af þeim sem hugsar reglulega um hvernig þú getir farið að því að fá meira út úr tímanum þínum og aukið afköst þín í vinnunni – og helst heima líka?Ert þú með flottan og vel skipulagðan verkefnalista sem því miður virðist oft lengjast meira en styttast og reynir því að „kaupa þér tíma“ með því að færa til verkefni?

Ég get fullvissað þig um það strax lesandi góður að þú munt ekki fá meiri tíma en þú hefur nú þegar!  Þú, eins og allir aðrir, hefur bara 24 klukkustundir í sólarhringnum.

Í staðinn fyrir að halda áfram að færa til verkefni í þeirra von að geta þannig „keypt“ tíma vil ég núna hvetja þig til að skoða frekar hvernig orkubúskapurinn þinn er.  Hvað eyðir helst upp orkunni þinni og hvernig getur þú endurnýjað hana eða byggt hana upp að nýju.

 • Hvort fer meiri orka í það hjá þér í vinnunni að hugsa um það sem þú getur haft áhrif á eða það sem þú getur bara haft skoðanir á eða áhyggjur af - en engin áhrif?
 • Hvort fer meiri orka í það hjá þér að hugsa um allt það sem þú átt eftir að gera - eða að demba þér bara strax í verkefnin og fagna því sem þú þegar hefur lokið?
 • Reynir þú að stýra krefjandi verkefnum og fundum inn á ákveðna tíma dags sem telur að sé þinn besti tími – tími sem þú ert sérstaklega vel upplagður á?
 • Gætir þú hugsanlega stýrt orkunni þinni þannig að þú hafir jafna orku allan daginn og að það sé alltaf „þinn tími“?

Það er staðreynd að í núverandi efnahagsástandi eru margir vinnustaðir að krefjast bættrar frammistöðu og meiri afkasta af sínu starfsfólki, meðal annars með því að biðja það að sinna fleiri verkefnum en áður, til að mynda vegna fækkunar starfsfólks.

Því miður virðist starfsfólk oft ekki kunna aðrar leiðir til að mæta þessum kröfum en með því að sleppa vinnuhléum og eða með lengri vinnutíma, án þess að fá endilega greitt sérstaklega fyrir hann.

Álag á vinnutíma og vinnutími hefur því verið að aukast eða lengjast hjá mörgum þrátt fyrir að mælingar hafi sýnt að framleiðni pr. vinnustund er lægri hér á landi en hjá þeim þjóðum sem við berum okkur gjarnan saman við.

Landsframleiðsla hér á landi er vissulega há í samanburði við margar samanburðarþjóðir en við förum illa út úr þeim samanburði þegar landsframleiðslan er skoðuð niður á unnar vinnustundir.

Lengri vinnudagar og aukið álag til lengri tíma er farið að leiða af sér langtíma þreytu, minni tryggð, aukin veikindi og fjarvistir.  Það hefur augljóslega áhrif á rekstrarlegar niðurstöður fyrirtækja.

Hvað er þá til ráða?

Árið 2007 birtist í Harvard Business Review grein eftir Tony Schwartz og Catherine McCarthy, með titilinn „Manage Your Energy, Not Your Time“ sem gæti útlagst sem „Stýrðu orkunni þinni, ekki tímanum þínum“.

Þau eru bæði starfandi hjá „The Energy Project“ í New York og hafa unnið með fjölmörgum fyrirtækjum að því að skoða hvernig auka má eða endurnýja orku starfsfólks og vísa í greininni í fjölmörg áhugaverð dæmi og reynslusögur, m.a. frá Sony í Evrópu, Wachovia Bank í New Jersey, Ernst & Yong o.fl.

Greinin gengur mikið út á að minna okkur á að tíminn sé takmörkuð auðlind en að orkan okkar sé endurnýjanleg.

Talað er um líkamlega, tilfinningalega, hugræna og andlega orku og ýmsar, oft á tíðum mjög einfaldar, leiðir nefndar sem við getum farið til að endurnýja orku okkar á hverju sviði.

Athyglisvert er að ábyrgðinni á orku starfsfólks er varpað bæði á fyrirtækin og starfsfólkið sjálft.

Starfsfólk er hvatt til að bera ábyrgð á sjálfu sér og gera sér grein fyrir því hvað það er kostnaðarsamt að hafa fólk í vinnu sem ekki hefur fulla orku til að sinna starfi sínu.  Starfsfólk þarf því að sinna sjálfu sér og sinni heilsu vel, mataræði, svefni, hreyfingu, andlegu hliðinni, því sem gefur því orku og fleiru því um líku þannig að það mæti úthvílt og fullt af orku til starfa á hverju degi.  Á sama tíma er starfsfólk hvatt til að huga að skilum á milli vinnu og einkalífs.

Fyrirtækin verða svo að búa þannig að starfsfólki að það sé ekki keyrt áfram á síðustu orkudropunum og að því sé búin aðstaða og tækifæri til að endurnýja orku sína með reglulegu millibili á vinnutíma.

Einnig er talað um að það vera með of mörg verkefni í gangi í einu, þar sem hlaupa þarf á milli verkefna til að halda öllum boltum á lofti, verði til þess að öll verkefni taka allt að 25% lengri tíma, þar sem svo mikill tími og orka fer í að vera alltaf að koma sér inn í hlutina upp á nýtt (i.e. switching time).

Það að vera með færri mál í gangi í einu og einbeita sér að núinu (i.e. mindfulness) geti því sparað heilmikinn tíma og peninga, m.a. er sagt framkvæmdastjóra hjá Wachovia banka sem hefur stytt þann tíma sem það tekur hann að klára skýrslur um 67%, með því einfaldlega að slökkva á símum og loka að sér á meðan hann vinnur skýrslurnar, í stað þess að vera með allt í gangi á sama tíma.

Þó að við sjáum það kannski ekki alveg fyrir að við getum í fljótu bragði fækkað hjá okkur verkefnum þá væri alla vega ráð að byrja að huga að orkunni sinni og hvernig má endurnýja hana og auka með því að sinna sjálfum sér vel líkamlega og andlega og taka sér tíma í að gera það sem gefur manni orku til að fást við það álag sem við flest búum við í leik og starfi.

Skrifað af Herdís Pálu Pálsdóttur, markþjálfa

Þessi grein birtist áður í 10. tbl. 2012 Frjálsrar verslunar

Má bjóða þér aðstoð og stuðning?

Lífsþjálfun (life coaching) er ein af mörgum tegundum markþjálfunnar.  Almennt snýst lífsþjálfun um heildarsýn, hvernig einstaklingur hugsar um líf sitt í heild. Lífsþjálfun snýst líka um persónulegan vöxt og breytingar sem hver og einn gengur í gegnum á lífsleiðinni, viljandi eða óviljandi.

Lífsþjálfun hjálpar fólki að skýra líf sitt og þróa stefnu sem það vill taka. Lífsþjálfun leggur áherslu á persónuleg málefni. Lögð er áhersla á að fólk myndi sér framtíðarsýn og í hvaða átt það vill stefna í lífinu. Nánari áherslur geta í raun legið hvar sem er. Hægt er að leggja áherslu á að efla sjálfstraust og sjálfsvirðingu, ná jafnvægi eða árangri í lífinu á öllum sviðum, fjölskyldumálum, samböndum, heilsumálum, fjármálum, jafnvægi milli vinnu og einkalífs og fleira.  Auk þess getur það verið hluti af lífsþjálfun að velja sér framtíðarstarf eða breyta um starfsvettvang.

Hægt er að bera lífsþjálfun saman við íþróttir, flestir íþróttamenn eru með þjálfara til að halda sér við efnið til að ná árangri og margir ráða sér einkaþjálfara til að standa sig í ræktinni. Það er því ekkert öðruvísi að þiggja aðstoð lífsþjálfa til að auka lífsgæði sín eða gera breytingar á lífinu.

Hlutverk lífsþjálfa er að hjálpa einstaklingi að komast frá þeim stað þar sem hann er staddur og þangað sem hann vill vera. Lífsþjálfi hjálpar til við að átta sig á stöðunni, draga fram styrkleika og tækifæri og skoða raunhæfa möguleika.

Lífsþjálfi notar kröftugar spurningar til að finna út hvar einstaklingur er staddur í lífinu og hverju hann vill breyta. Hann aðstoðar við að finna leiðirnar og lausninrnar sem þarf til að ná árangri í ferlinu. Einstaklingar eru hvattir til að horfa á sjálfan sig frá öllum sjónarhornum.

Góður lífsþjálfi hjálpar til að finna út hvað drífur einstakling  áfram, fær hann til að  uppgötva hindranir og komast fram hjá þeim og hjálpar til við greina hugsanir í undirmeðvitundinni. Lífsþjálfi hvetur til þess að sjá hlutina í öðru og jákvæðara ljósi og mynda tækifæri og möguleika út úr aðstæðum sem áður fyrr hefðu valdið vonbrigðum.

Markþjálfunarferlið  er markviss aðferð, þar sem einstaklingum er hjálpað að skoða sjálfan sig og umhverfi sitt, setja sér markmið, búa til aðgerðarplön og framkvæma, fylgjast með sjálfum sér og endurmeta stöðugt frammistöðuna með það að leiðarljósi að ná betri árangri og til að ná þeim markmiðum sem sett eru. Hlutverk markþjálfans er að leiðbeina einstaklingnum í gegnum ferlið og styðja við framgang þess.

Skrifað af Hugrúnu Lindu Guðmundsdóttur, ACC - Markþjálfi

n.

Verkefni: Ná meiri árangri í vinnunni og meiri starfsánægju á sama tíma

Ráðlagður dagskammtur til að leysa verkefni: 2 x 10 mínútur á dag.

Kannast þú við að æða áfram dag hvern, eltast við og bregðast við endalausu alls kyns áreiti umhugsunarlaust og skilja svo ekkert í því að áður en þú veist af er hver vikan og mánuðurinn liðinn, jafnvel árið, án þess að þú hafir gert það sem þú ætlaðir þér eða náð þeim árangri sem þú hafðir ætlað þér eða taldir að þú hefðir sett þér markmið um?
Líður þér jafnvel stundum eins og hamstri á hlaupahjóli og að þú komist lítið áfram.

Hvernig getur þú breytt þessu fyrir þig?

Auðvitað er ekkert eitt rétt svar en hér kemur tillaga frá mér sem ég skora á þig að prófa.

Taktu 10 mínútur í upphafi hvers dags til að:

·       Hugleiða og fá skýra sýn á hvernig þú vilt að dagurinn verði og hverju þú ætlar að áorka áður en hann verður að kvöldi kominn

·       Skoða daginn í samhengi við áætlun sem þú kannt að hafa fyrir vikuna eða mánuðinn og setja þér dagsáætlun í samhengi við það

·       Skoðaðu dagbókina þína, gerðu ráðstafanir til þess að þú hafir nægan tíma til að undirbúa þig fyrir hvern fund, símtal eða annað sem þú þarft að gera

·       Ef þú ert með verkefni sem tekur 30 mínútur eða meira að gera og þú þarft að klára á ákveðnum degi eða fyrir ákveðinn dag, taktu þá frá tíma í dagbókinni til að sinna þessu verkefni

·       Farðu yfir verkefnalistann þinn (task-listann, sem þú vonandi heldur vel utan um í outlook, ToodleDo.com eða öðru sambærilegu kerfi) og forgangsraðaðu út frá mikilvægi og hversu mikið virði verkefnin skapa

·       Skoða hvort þú sért með verkefni á verkefnalistanum þínum sem þú ættir ekki að gera eða betra væri að aðrir gerðu

·       Passa að þú bókir þig ekki svo þétt á fundi eða í ýmis verkefni að þú hafir ekki lausar stundir til að vinna í mikilvægustu verkefnunum á verkefnalistanum

·       Passa að þú hafir tíma til að sinna líkamsrækt af einhverju dagi, fara út að ganga eða hjóla eða mæta í ræktina til að brenna eða gera styrktaræfingar eftir því sem þér hentar hverju sinni

·       Passa að þú hafir tíma til að staldra við, draga djúpt andann og hugleiða hvort þú sért að vinna stefnumiðað og út frá þeirri sýn sem þú hefur fyrir daginn eða hvort þú sért farinn að hlaupa um eins og hamstur á hjóli

·       Renna yfir innkominn tölvupóst og fullvissa þig um að þó þú sért ekki búinn að svara eða bregðast við þeim öllum að þú sért alla vega kominn með yfirsýn yfir þann mikilvægasta og þann sem þú þarft að bregðast við innan dagsins

Í lok þessara 10 mínútna, í upphafi dags, áttu að vera vel undirbúinn fyrir árangursríkan dag þar sem þú upplifir að þú sért með allt á hreinu!

Kannski eru þetta ekki réttu atriðin fyrir þig og þú gerir þér annars konar lista en taktu samt alltaf 10 mínútur í upphafi dags til að fara yfir daginn sem framundan er og gerðu allt sem þú getur til að tryggja að hann verði góður og árangursríkur.

 

Taktu líka 10 mínútur undir lok hvers dags til að:

·       Hugleiða og meta hvernig dagurinn gekk

·       Byrja í huganum að undirbúa 10 mínúturnar sem þú þarft að taka þér morguninn eftir til að skipuleggja þann dag, hvað mun flæða yfir á næsta dag

·       Setja í task-listann þinn ef það er eitthvað af því sem þú gerðir í dag, fundir, símtöl eða verkefni, sem krefst eftirfylgni síðar

·       Kíktu á dagbók næsta dags og athugaðu hvort þú þarft að undirbúa eitthvað fyrir þann dag áður en þú ferð heim eða að bóka meiri tíma til undirbúnings í upphafi næsta dags

·       Athuga tölvupóstinn minn og skipulagið á honum, ertu búinn að merkja þann póst sem þú þarft að fylgjast með eða fylgja eftir og eyða pósti sem þú þarft ekki að eiga

·       Hreinsa út af verkefnalistanum þínum það sem þú náðir að klára yfir daginn og hafa það sem eftir stendur klárt fyrir 10 morgun-mínútur næsta dags

·       Taka til á skrifborðinu þínu þannig að næsti dagur mæti þér ekki í óreiðu

Þessar 10 mínútur eiga að verða til þess að þú ferð heim með þá tilfinningu að þú sért með allt á hreinu og sért með allt klárt fyrir 10 morgun-mínútur næsta dags.

Kannski eru þetta ekki réttu atriðin fyrir þig og þú gerir þér annars konar lista en taktu samt alltaf 10 mínútur undir lok hvers dags til að fara yfir daginn, meta hvernig til tókst og hvað þú getur hugsanlega gert betur næsta dag.

Þú gætir jafnvel fengið þér bandamann, einhvern sem þú treystir, vin, samstarfsfélaga eða markþjálfa, til að ýta við þér ef þér er ekki að miða neitt áfram með markmið þín eða í þá átt sem þú stefnir.


Það er því ekki eftir neinu að bíða með að bæta hjá sér skipulagið, auka vellíðan og ánægju með vinnuna og ná þannig meiri árangri.

Tafla með dæmum sem gott er að hafa til viðmiðunar við mat á því í hvað tími manns er að fara:

Áríðandi / Með tímamörk

Ekki áríðandi / Án tímamarka

Mikilvægt / Eykur virði

1. Stjórna

·       Óvæntar krísur hjá fyrirtækinu/deildinni

·       Ákveðin verkefni og fundir sem háðir eru tíma

2. Fókus

- hér ætti mest af tíma stjórnenda að vera

·       Áætlanagerð, undirbúningur

·       Menntun, þjálfun og þróun

·       Mynda sambönd og tengslanet

·       Hvatning starfsfólks / Umboð til athafna

Ekki mikilvægt / Eykur ekki virði

3. Minnka, fá aðra til að leysa

·       Forgangsatriði annarra

·       Truflanir

·       Sumir fundir, símtöl, tölvupóstur

4. Eyða

·       Innihaldslausar samræður

·       Rusl-tölvupóstur

·       Net-ráp eða tölvuleikir

Skrifað af Herdísi Pálu Pálsdóttur

Verkefni: Ná meiri ánægju og árangri í einkalífinu

Ráðlagður dagskammtur til að leysa verkefni: 2 x 10 mínútur á dag.

Kannast þú við þá tilfinningu að vera nánast daglega að ergja þig yfir sömu hlutunum, vera að gera sömu hlutina, vera að eltast og bregðast við endalausu alls kyns áreiti umhugsunarlaust og skilja svo ekkert í því að áður en þú veist af er hver vikan og mánuðurinn liðinn, jafnvel árið, og þú jafnvel engu nær með því að ná markmiðum þínum, draumum og framtíðarsýn og hvert árið á eftir öðru ertu meira og minna í sömu sporunum.

Hvernig getur þú breytt þessu fyrir þig? 

Auðvitað er ekkert eitt rétt svar en hér kemur tillaga frá mér sem ég skora á þig að prófa.

Taktu 10 mínútur í upphafi hvers dags til að:

 • Hugleiða og fá skýra sýn á hvernig þú vilt að dagurinn verði og hverju þú ætlar að áorka áður en hann verður að kvöldi kominn
 • Skoða daginn í samhengi við drauma þína og framtíðarsýn, hvað getur þú gert í dag til að færa þig nær framtíðarsýninni
 • Notaðu dagbók og haltu utan um í hvað tími þinn er að fara
 • Minnkaðu tímann sem fer í sjónvarpsáhorf og netráp og nýttu hann til uppbyggilegra þátta, eins og heilsurækt, hitta vini og fjölskyldu, vinna að draumnum sem þú hefur lengi haft
 • Bókaðu tíma í dagbókinni þinni fyrir þessu uppbyggilegu þætti þannig að þú sinnir þeim örugglega
 • Vertu með verkefnalista yfir þau verkefni sem þú þarft að sinna, s.s. fara með föt í hreinsun, skipta um ljósaperu í forstofunni, keyra ömmu gömlu til læknis o.fl.
 • Settu á verkefnalistann öll þau atriði sem eru að pirra þig (saumspretta á skyrtu, bilaður hæll á skó, skítugur bíll, ófrágengnir reikningar o.fl.) og gakktu skipulega til verks að klára þessi atriði svo þau taki ekki orku frá þér
 • Skoða hvort þú sért með verkefni á verkefnalistanum þínum sem þú ættir ekki að gera eða betra væri að aðrir gerðu
 • Passa að þú sért ekki með svo þéttskrifaða dagbók að þú hafir ekki lausar stundir til að vinna í mikilvægustu verkefnunum á verkefnalistanum
 • Passa að þú hafir tíma til að sinna líkamsrækt af einhverju dagi, fara út að ganga eða hjóla eða mæta í ræktina til að brenna eða gera styrktaræfingar eftir því sem þér hentar hverju sinni
 • Passa að þú hafir tíma til að staldra við, draga djúpt andann og hugleiða hvort þú sért að vinna í því sem skiptir þig máli og í samræmi við framtíðarsýn þína eða hvort þú sért að elta skottið á einhverjum öðrum alla daga

Í lok þessara 10 mínútna, í upphafi dags, áttu að vera vel undirbúinn fyrir árangursríkan dag þar sem þú upplifir að þú sért með allt á hreinu!

Kannski eru þetta ekki réttu atriðin fyrir þig og þú gerir þér annars konar lista en taktu samt alltaf 10 mínútur í upphafi dags til að fara yfir daginn sem framundan er og gerðu allt sem þú getur til að tryggja að hann verði góður og árangursríkur.
Taktu 10 mínútur í lok hvers dags til að:

 • Hugleiða og meta hvernig dagurinn gekk
 • Skrifaðu niður allt sem þú kláraðir eða komst í verk yfir daginn
 • Strikaðu út af verkefnalistanum það sem þú kláraðir af honum
 • Skrifaðu niður allt sem þú getur þakkað fyrir

Þessar 10 mínútur eiga að verða til þess að þú ferð í háttinn með þá tilfinningu að þú sért með allt á hreinu og hlakkir til að taka á móti næsta degi.

Kannski eru þetta ekki réttu atriðin fyrir þig og þú gerir þér annars konar lista en taktu samt alltaf 10 mínútur í lok hvers dags til að fara yfir daginn, meta hvernig til tókst og hvað þú ættir hugsanlega að gera öðruvísi næsta dag.

Þú gætir jafnvel fengið þér bandamann, einhvern sem þú treystir, vin, samstarfsfélaga eða markþjálfa, til að ýta við þér ef þér er ekki að miða neitt áfram með markmið þín eða í þá átt sem þú stefnir.

Það er því ekki eftir neinu að bíða með að gera allt það sem okkar valdi er til að auka vellíðan og ánægju og ná þannig meiri árangri.

Gangi þér vel.

Skrifað af: Herdísi Pálu Pálsdóttur

Aldrei, aldrei, aldrei gefast upp!

Herra Winston Churchill er mörgum þekktur og var meðal annars breskur stjórnmálamaður, starfaði í hernum og var einnig blaðamaður og rithöfundur sem hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1953.  Herra Churchill átti engu að síður á vissum tíma erfitt með að læra sitt eigið móðurmál, ensku og tók það hann þrjú ár að ljúka áttunda bekk!  Því má segja að það sé nokkuð skondið að árum síðar var hann beðinn að halda útskriftarræðu við merka menntastofnun í eigin heimalandi, Oxford háskóla.Hann mætti í sínum vanalega útbúnaði, með vindil, staf og pípuhatt sem hann hafði með sér hvert sem hann fór.  Er Churchill gekk að pontunni stóðu áhorfendur upp og fögnuðu honum ákaft.  Með einstaklega virðulegu yfirbragði og yfirvegun fékk hann áhorfendur til að ljúka klappi og fögnuði og stóð öruggur fyrir framan þá.  Hann fjarlægði vindilinn og setti pípuhattinn varlega á pontuna áður en hann leit til áhorfenda sem biðu spenntir eftir orðum þessa merka manns.  Með sterkan, kraftmikinn róm sinn kallaði hann loks yfir salinn; “Aldrei gefast upp!”  Nokkrar sekúndur liðu áður en hann reis á tær sér og endurtók hátt og með enn meiri krafti; “Aldrei, aldrei, aldrei gefast upp!”  Orð hans voru sterk og kraftmikil og ómuðu sem þrumur í eyru áhorfenda og hefði mátt heyrast í nál detta af spenningi fyrir næstu orðum hans er Churchill teygði sig rólega í hatt sinn og vindling, gerði sig stöðugan með staf sínum og gekk frá pontu.  Ræðu hans var lokið.

Herra Winston Churchill, maður sem átti auðvelt með orð og skrif og hafði hlotið bókmenntaverðlaun Nóbels, þrátt fyrir örðugleika á sínum fyrri árum, fannst þessi einföldu orð vera þau merkustu og sterkustu sem hann gat mögulega gefið þessum útskriftarnemum.

Ef þú vilt ná árangri í lífi og starfi þá þarftu í raun aðeins að finna út og vita hvert þú stefnir og síðan hanna og stíga skrefin sem koma þér þangað.  Það er ekkert sem getur í raun staðið í vegi fyrir þér.  Þannig að þú skalt aldrei, aldrei, aldrei gefast upp!

Skrifað af Maríu Lovísu Árnadóttur

 

Brúin sem var reist með einum fingri.

Það var árið 1883 sem verkfræðingurinn John Roebling fékk hugmynd sem samtíðarfólki hans þótti brjálæðisleg og vonlaust verk að vinna. Eitthvað varð til þess að Roebling gat ekki ýtt þessari hugmynd úr huga sér þrátt fyrir úrölur um að það væri vonlaust að framkvæma hana, það bara væri ekki hægt, ekkert þessu líkt hafði verið gert áður. Eftir miklar umræður tókst honum að sannfæra son sinn Washington, nýútskrifaðan verkfræðing, um að verkið væri vinnandi. Saman lögðu þeir feðgar af stað í hina „vonlausu vegferð“ að mati annarra og hófust handa við að byggja Brooklyn brúna í New York.Verkið fór vel af stað en eftir aðeins nokkurra mánaða vinnu lést John Roebling í kjölfar áverka eftir vinnuslys. Sonur hans Washington slasaðist, hlaut varanlegan heilaskaða sem gerði það að verkum að hann gat hvorki gengið, né talað.

Óhappið var eins og olía á eld úrtölumanna og kvenna sem endurtóku svartsýnisraus sitt í allra eyru: „ég sagði þetta allan tímann", „bilaðir menn að elta skýjaborgir“, „það er glapræði að eltast við svona draumóra“. Og miðað við ástandið var ekki útlit fyrir að byggingu brúarinnar yrði fram haldið. Enginn vissi hvernig átti að byggja hana annar en þeir feðgar. Washington reyndi hvað hann gat að koma verkinu yfir á vini sína úr stétt verkfræðinga en allt kom fyrir ekki. Enginn vildi taka verkið að sér. Sýn þeirra feðga var svo langt á undan þeirra samtíð að enginn sá fyrir sér að hægt væri að koma brúnni upp.

Einn dag lá Washington í sjúkrarúmi sínu og vorgolan feykti gardínunni frá glugganum svo hann sá glitta í heiðan himinn og trjátoppa úti við. Hann tók þessari fallegu sýn sem merki um að hann ætti ekki að gefast upp á byggingu brúarinnar þó svo að hann gæti hvorki gengið né talað. Allt sem hann gat var að hreyfa einn fingur – en hann einsetti sér þarna að nýta sér þann fingur til fulls og þróaði merkjakerfi sem hann og kona hans notuðu til að eiga samskipti. Konan hans, Emily, varð því tenging hans við umheiminn og hún tók yfir verkstjórn yfir byggingu brúarinnar og flutti skilaboð Wasingthons til verkfræðinga og verktaka. Í þau þrettán ár sem bygging brúarinar tók var það fingur Washingtons og túlkun konu hans á skilaboðunum sem gerði sýn þeirra feðga að veruleika. Brúin var vígð 1883 og var lengi vel stærsta brú sinnar tegundar í heiminum. Enn þann dag í dag er hún eitt glæsilegasta kennimerki stóra eplisins, stórvirki í byggingasögunni.

Brúin er ekki bara kennimerki borgarinnar og stórvirki í byggingasögunni. Hún er minnisvarð um mátt skýrrar framtíðarsýnar, þrautseigju, útsjónarsemi og síðast en ekki síst þess að gefast ekki upp. Hún minnir okkur á að hversu stór sem hindrunin fyrir framan okkur á leið okkar að markinu er, þá má alltaf finna leið yfir eða framhjá. Hindranirnar sem við stöndum frammi fyrir eru sem betur fer fæstar eins stórar og miklar og hindrun Washingtons en engu að síður látum við þær standa í vegi fyrir því að draumar okkar rætist. Þrá hans eftir brúnni var hindruninni yfirsterkari.

Fyrst hægt er að reisa brú með einum fingri...Hvaða hindrunum þarft þú að ryðja úr vegi í dag til að færast nær þinni framtíðarsýn?

Skrifað af Unni Valborgu Hilmarsdóttur, Stjórnendamarkþjálfa

Birt á mbl.is

Hvað merkir Coaching / markþjálfun?

Coaching eða markþjáflun, eins og við köllum það á íslensku, er tiltölulega nýtt starfsheiti á Íslandi og því eðlilegt að við, sem höfum valið markþjálfun

sem starfssvið, fáum oft viðbrögð eins og... „Ha, hvað er það... ertu að þjálfa markmenn?“
– Nei, ég er ekki að þjálfa markmenn sérstaklega, þeir geta að sjálfsögðu líka fengið markþjálfun, eins og allir aðrir. Því markþjálfun er fyrir alla hvar sem þeir
eru staddir í lífinu.
Orðið markþjálfi er íslenskað frá enska orðinu Coach sem þýðir þjálfi. Upprunnalegu merkingu orðsins má rekja til franska orðsins coche, sem þýðir vagn. Um miðja 18. öld finnst orðið Coaching fyrst í enskum háskólum. Þá hafði það fengið víðtækari merkingu og lýsti frekar samsettu ferli hestaveðhlaups, þar sem hesturinn dregur knapa, sem situr í tvíhjóla vagni, í átt að marki.  Knapinn þarf að hafa stjórn á hestinum um leið og hann fylgist með hinum hestunum á brautinni. Gott samspil hests og knapa skiptir öllu máli þegar horft er til útkomunnar… milli þeirra þarf að ríkja óbilandi traust, knapinn þarf að „hlusta“ á hestinn og lesa það sem ekki er sagt með orðum. Hann þarf að vera ákveðinn og samtímis bera fullkomið traust til hestsins þegar kappreiðarnar hefjast – treysta á að hesturinn viti hvar markið er, gefa honum lausan taum og vera tilbúinn að grípa inn í og halda hestinum á brautinni ef á þarf að halda.
Eins og fyrr segir þýðir orðið coach = vagn sem vísar til tækninnar (hugmynda-fræði coaching) þar sem verkfærin (vagninn) eiga að flytja okkur í átt að markinu.
Í kringum 1880 sést orðið svo í amerískum háskólum, þar sem Coach var notaður til að aðstoða framkvæmdastjóra íþróttaliða skólanna.
Eftir 1900 eru til heimildir um „non-sporting Coach“ og „non-ekspert Coach“ sem gegndu þá nokkurs konar ráðgjafahlutverki innan mismunandi tæknigreina, án
þess að vera „sérfræðingar“ í faginu. Hlutverk þeirra var að veita innblástur og hvatningu.
Það er svo Tim Gallway sem tengir Coaching beint við íþróttaheiminn 1974, þegar hann gefur út bókina „The Inner Game of Tennis“. Með útgáfu bókarinnar
brýtur hann blað í sögu þjálfunar, þar sem hann heldur því fram að þjálfarinn þurfi ekki að vera sérfræðingur um íþróttina – þvert á móti sé best að hann
sé „Not knowing“ – viti ekkert. Hann kom fram með þá kenningu, að þeim mun minna sem coachinn veit, þeim mun betri spurninga getur hann spurt.
Hann hélt því líka fram að „Stærsti andstæðingur þinn er ekki sá sem er hinum megin á vellinum heldur sá sem situr í höfðinu á þér“.
Árið 2000 gefur Gallway út bókina „The Inner Game of Work“ og er þá hægt að segja að Coaching sé komið inn í viðskiptaheiminn sem þjálfunartæki og er
meðal annars notað í mannauðs- og stjórnendaþjálfun, ásamt starfsþróun m.m.
Einn nemenda Gallway, John Whitmore, opnaði Coaching fyrir Evrópu þegar hann skrifaði bókina „Coaching for Performance“ sem kom út árið 1999 og þá
var Coaching komið til að vera í Evrópu.
Nú er Coaching komið til Íslands og heitir hér, MARKÞJÁLFUN
Bara svona í lokin…
Hefur þú heyrt um hestinn sem fór að heiman og týndist?
Hann var kominn svo langt að heiman að hann rataði ekki til baka. Eftir marga daga gekk hann fram á bónda nokkurn. Sá virkaði bæði ljúfur og góður svo
hesturinn treysti honum strax. Bóndinn klappaði hestinum og athugaði hvort hann þekkti merkingu hans, en þar sem hesturinn var svo langt frá heimkynnum sínum þá kannaðist bóndinn ekki við merkið.
Bóndinn hugsaði sig um, en svo danglaði hann í hestinn sem rölti af stað út á veginn. Um stund fylgdi hesturinn veginum en beygði svo til vinstri og fór að bíta
gras utan vegar. Bóndi beið smá stund áður en hann danglaði aftur í hestinn, sem reisti höfuðið og hélt upp á veginn á ný. Allt gekk vel um stund hesturinn hélt sig á veginum, en svo beygði hann til hægri og fór að bíta gras á ný. Bóndi stóð rólegur, danglaði síðan í hestinn og fékk hann upp á veg á ný. Svona leið tíminn og þegar dagur var að kveldi kominn blasti við þeim fallegur og reisulegur bóndabær. Hestur tók á rás og hljóp að bænum eins hratt og fætur toguðu. Bóndinn gekk á eftir og þegar hann kom í hlaðið hitti hann bóndann á bænum og kom þá í ljós að hann átti hestinn.
Eigandinn var himinlifandi og spurði bóndann hvernig hann hefði farið að því að leiða hestinn heim.
„Það var auðvelt, ég vissi ekki hvar hann átti heima en ég taldi öruggt að hann vissi það sjálfur. Mitt hlutverk var að dangla í hann þegar hann fór út af veginum og minna hann á að halda áfram – og nú er hann kominn HEIM“...

n.

Að ná lengra, gera betur og sigrast á erfiðleikum.

Markþjálfun er öflug leið til að takast á við erfiðleika, mynda ný markmið, finna ástríðu sína og ná árangri.

 
Á erfiðum tímum kemur í ljós úr hverju við erum gerð, hvernig við tökumst á við erfiðleikana. Okkur er ýtt út úr þægindahringnum og verðum að takast á við nýjar og áður óþekktar aðstæður. Á svona tímum ná þeir bestum árangri sem eru tilbúnir til að breyta hegðun sinni, setja sér ný markmið eða jafnvel hugsa líf sitt upp á nýtt.
 
Þó þetta hljómi einfalt þá er það fjarri því að vera það. Við erum ekki vön að hugsa hlutina up á nýtt, né erum við þjálfuð í að spyrja okkur gagnrýninna spurninga.
 
Hvað er þá til ráða? Ef við viljum raunverulega gera eitthvað í málunum þá leitum við aðstoðar eða hjálpar og sem betur fer eru fjölmargir sem hægt er að leita til.
 
Á undaförnum árum hefur markþjálfum (Coaching) rutt sér mjög til rúms hérlendis sem öflug aðferð til að takast á við þessa hluti. Í Bandaríkjunum hefur þessi þjónusta vaxið hraðast allra undanfarin 20 ár, vegna þess árangurs sem hún hefur skilað þeim sem hafa nýtt sér hana.
 
Markþjálfun er skipulög aðferð til að mynda kraftmikil markmið, uppgötva framtíðarsýn og löngun og ná markmiðum. Markþjálfun á vaxandi vinsældum að fagna hérlendis eftir því sem fleiri kynna sér hana. Flestir starfandi markþjálfar á Íslandi eru félagar í Félagi markþjálfunar á Íslandi (FMÍ) og á heimasíðu félagsins (https://www.markthjalfun.is/markthjalfar) er hægt að sjá hverjir þeir eru.
 
Félag markþjálfunar á Íslandi hefur sett sér strangar og ítarlegar (Siðareglur) sem allir markþjálfar í FMÍ hafa skuldbundið sig til að virða, en þær eru sniðnar eftir siðareglum International Coach Federation sem eru stærstu óháðu alþjóðlegu samtök markþjálfa í heiminum í dag með um 18.000 félaga í 90 löndum. Siðareglurnar og fullkominn trúnaður eru starfsgrundvöllur markþjálfa í FMÍ í því skyni að tryggja hagsmuni og öryggi viðskiptavinanna.
 
Til að koma í veg fyrir misskilning skal það tekið fram hér, að markþjálfi er EKKI meðferðaraðili, ráðgjafi eða leiðbeinandi. Markþjálfun hefur verið skilgreind sem viðvarandi faglegt samband sem miðar að því að viðskiptavinur taki skref sem gera framtíðarsýn hans, markmið og óskir að veruleika.
 
Það sem markþjálfi gerir er að hann dregur fram hugmyndir viðskiptavinarins sem hann veit ekki að búa með honum. Markþjálfi skýrir og skerpir á því, hvað það er sem viðskiptavinurinn raunverulega vill. Hann skapar vettvang fyrir nýja sýn og ný viðhorf.  Markþjálfi veitir stuðning við afdrifaríkar ákvarðanir og víkkar og stækkar hugsanaferli viðskiptavinarins með því að örva hann og ögra honum. Á stundu óvissu og glundroða getur hann veitt álit og bent á nýjar leiðir ef óskað er og nauðsyn krefur. Síðast en ekki síst veitir hann viðurkenningu á því sem vel er gert.
 
Markþjálfi vinnur þannig að hann beitir virkri hlustun. Í samræðum bíða flestir eftir að koma sínum sjónarmiðum að og hirða oft lítið um það sem hinn aðilinn er að segja.  Markþjálfi hlustar á það sem sagt er og geinir raddblæ og tilfinningar, sem stundum segir meira en orðin sem eru notuð. Oft skýrist málefnið með því einfaldlega að tala um það sem er mikilvægt og hvílir hvílir þungt á viðmælandanum. Málefni og hugmyndir viðskiptavinar eru ætíð í brennidepli og það eina sem skiptir máli í vinnu með markþjálfa. Markþjálfi kemur ekki með tilbúnar lausnir, heldur vinnur eingöngu útfrá hæfleikum, löngunum og markmiðum
viðskiptavinarins.
 
Markþjálfi spyr kraftmikilla spurninga sem leiða til aukins skýrleika, nýrra hugmynda og tækifæra og þokar viðskiptavininum í átt að markmiðum hans. Þá skapar hann vettvang fyrir nýja sýn með því að spyrja spurninga sem skapa nýtt sjónarhorn, eða ýtir viðskiptavininum út úr þægindasviði hans til að sjá nýjan flöt á málinu.
 
Í markþjálfunarsamtali fer af stað ferli sem erfitt er að lýsa í stuttu máli en margir viðskiptavinir upplifa að þeim hafi opnast nýja víddir, þess vegna bjóða flestir markþjálfar upp á ókeypis kynningartíma til að nýjir aðilar geti reynt þetta sjálfir áður en þeir taka ákvörðun um frekari viðskipti.
 
 

Kveikjum á vélinni!

Ignite the engine!

Þessi setning hljómar stöðugt í huga mér þessa dagana.

Í ADD  Coach Academy er mikið lagt upp úr því að við lærum að skilja hvernig ADHD virkar og hvernig hægt er að hjálpa fólki að bæta frammistöðu sína. Eitt af lykilatriðunum er að einstaklingurinn þekki hæfileika, styrkleika og áhugasvið sín.  Ég er að sjá bæði í lífi mínu og annara í kringum mig hvað það skiptir miklu máli og hvers virði það er fyrir þá.

Í ADD Coach Academy segja þau “Ignite the engine” eða “gefðu start”!

Vélin í þessari myndlíkingu er heilinn og startið er áhugi og áhugasvið.

Þar sem styrkleikar og áhugi koma saman geta ótrúlegir hlutir gerst.  Hugmyndir streyma fram, frammistaða batnar, áhugi vex og það sem meira er að sjálfstraustið styrkist.

Hvers er annars ætlast til af okkur? Ég vil trúa því að það sé tilgangur fyrir hvern og einn hér á jörð.  Okkur hefur verð gefnir hæfileikar og styrkleikar, þar er engin undanskilin.  

 Við erum ekki gölluð en hættir því miður til að dæma okkur eftir því hve illa gengur og hvað við getum ekki gert. Við þurfum hjálp við að losa okkur við þessar hugmyndir og viðhorf og hjálp til að fá trú á okkur. Okkur hættir til að bera okkur saman við frammistöðu annarra.

Við erum sett saman á einstakann hátt sem oft fellur ekki undir „normið“. Hver segir að við séum gölluð þó við högum okkur og framkvæmum ekki eins og „normið“ segir? Þess vegna meðal annars hefur ADHD coaching hentað vel ADHD einstaklingum. Hugarfarið þurfum við að komast yfir og öðlast trú á okkur sjálf.  Og það er hægt.

Skrifað af Sigríði Jónsdóttur, ACG markþjálfa og CGC ráðgjafa

Ég er steinhætt(ur) að strengja áramótaheit – þau klikka einhvernveginn alltaf!!!

Áramótin eru tími markmiðasetningar og áheita. Ert þú ein(n) af þeim sem strengir áramótaheit eða ertu steinhætt(ur) því af því að þau ganga aldrei eftir?„Þú getur náð öllum markmiðum þínum ef þú vinnur staðfastlega að því.“ Sagði Cha Sa-Soon, 68 ára gömul kona frá Suður Kóreu sem náði skriflegu bílprófi í landi sínu eftir 950 tilraunir.

Þegar ég las um Cha Sa-Soon velti ég því fyrir mér hvort henni hefði aldrei dottið í hug að gefast upp. Líklega hefur það hvarflað að henni. Spurningin er þá hvenær. Ætli það hafi verið eftir 372 tilraunir, eða kannski eftir 789 tilraunir. Skiptir kannski ekki öllu. Það sem skiptir mestu máli er að hún gafst ekki upp og á endanum náði hún markmiði sínu. Hennar markmið breytir kannski ekki heimssögunni en markmið Edisons þegar hann vann að ljósaperunni átti eftir að breyta heimssögunni. Sagan segir að það hafi tekið hann 3000 tilraunir að finna upp ljósaperuna. Það er erfitt að ímynda sér hvað hefði gerst ef hann hefði gefist upp eftir 2798 tilraunir! Þegar hann var spurður út í þetta erfiði kom berlega í ljós hvers vegna hann gafst ekki upp eftir allar þessar misheppnðu tilraunir: „Mér mistókst ekki 3000 sinnum heldur fann ég 3000 leiðir til að lata ljósaperu virka EKKI.“

Viðhorf Edisons er það viðhorf sem við verðum að tileinka okkur til að ná árangri í atlögu okkar að þeim markmiðum sem við setjum okkur. Okkur á eftir að mistakast en það er hvernig við tökumst á við þessi mistök sem sker úr um hvort við náum árangri eða gefumst upp.

Hversu knýjandi eru þín markmið?

Mestu máli skiptir að sýn okkar sé eins knýjandi og mögulegt er til að minnka líkurnar á því að við gefumst upp. Hvernig er þitt viðhorf gagnvart þeim markmiðum sem þú hefur sett þér. Hversu knýjandi eru þau? Af hverju viltu ná þessum markmiðum? Hvað breytist þegar þú hefur náð þeim? Er þetta eitthvað sem skiptir þig verulegu máli?

Ef svörin við þessum spurningum fá þig til að iða í skinninu við að hefjast handa við að vinna að markmiðinu eru meiri líkur á að þú náir árangri. Þegar niðurstaðan er knýjandi eru meiri líkur á að við höfum hana í huga þegar hugsanir um að gefast upp sækja á okkur. Og trúðu mér, þær hugsanir eiga eftir að sækja á. Hversu mörg áramótaheit falla ekki í gleymskunnar dá stuttu eftir að þau eru strengd? Sagt er að 15. janúar sé sú dagsetning sem flestir eru búnir að gefast upp á áramótaheitum sínum. Þrautsegjan er því varla mikil. Er það furða að algengasta svarið við spurningunni „strengdir þú áramótaheit“ sé „nei ég er alveg steinhætt(ur) því, þau klikka einhvernveginn alltaf“. Af því að þau klikka alltaf hugsar fólk með sér að það sé  betra að spara sér þau mistök með því að sleppa því alfarið að setja sér markmið. Þar liggur raunverulegi vandinn, hræðslan við að mistakast verður ávinningnum yfirsterkari .

Með því að setja okkur ekki markmið, hvort sem þau eru á formi áramótaheita eða annarskonar formi, erum við að ræna okkur möguleikanum á að ná enn meiri árangri.

Líf án markmiða er eins og skip án áfangastaðar. – Óþekktur höfundur

Skrifað af Unni Valborgu Hilmarsdóttur, stjórnendamarkþjálfa

15 ástæður fyrir því að þú hefur EKKI þörf fyrir að vinna með markþjálfa.

1. Þú ert ekki að vinna með nein meiriháttar breytingarferli í starfi (eða lífi). [Rétt][Rangt]

2. Þú ert ekki að vinna með nýtt eða stækkandi hlutverk. [Rétt][Rangt]

3. Þig langar ekki til þess að verða frambærilegri eða framsæknari en þú ert í dag. [Rétt][Rangt]

4. Þú ert sátt/ur við núverandi hraða á persónulegum og faglegum vexti og sérð enga ástæðu til þess að vaxa hraðar. [Rétt][Rangt]

5. Þú hefur enga þörf fyrir að ná betri árangri. [Rétt][Rangt]

6. Þú sérð ekki ástæðu til þess að betrumbæta eða auka við hraða á dómgreind og ákvarðanatöku. [Rétt][Rangt]

7. Þú þarft ekki að betrumbæta sambönd þín eða samskipti eða auka við getu þína og hæfileika til að tengjast við eða skilja aðra.

    [Rétt][Rangt]

8. Líf þitt og starf eru í fullkominni sátt og jafnvægi. [Rétt][Rangt]

9. Þú ert fullkomlega einbeitt/ur og fær um að framkvæma vel og skilmerkilega. [Rétt][Rangt]

10. Þig langar ekki til þess að hafa meiri áhrif á heiminn eða umhverfi þitt en þú hefur nú þegar. [Rétt][Rangt]

11. Líf þitt er einfalt og að mestu leiti laust við stress. [Rétt][Rangt]

12. Gildi þín, markmið og aðgerðir eru fullkomlega samræmd. [Rétt][Rangt]

13. Þú ert eins skipulöggð/laggður og þú hefur þörf og löngun til að vera. [Rétt][Rangt]

14. Þú hefur enga þörf fyrir að bæta stjórnunar- eða leiðtogahæfileika þína. [Rétt][Rangt]

15. Þú ert mjög sjálf-hvetjandi og drífandi, veist nákvæmlega hvað þú vilt í lífinu og ert með “allt þitt á hreinu”. [Rétt][Rangt]

Reynast flest eða öll þessi atriði rétt fyrir þér?  Ef ekki, þá myndir þú jafnvel vilja íhuga hvað það gæti gefið þér að vinna með færum markþjálfa.

Hér á síðu Félags markjálfunar á Íslandi undir Markþjálfar geturðu fundið lista yfir og upplýsingar um viðurkennda markþjálfa.

.

Fara allir kátir og inspireraðir frá okkur

María Lovísa Árnadóttir

,,Markþjálfunardagurinn er okkar leið til að gefa af okkur og ræða um skemmtileg málefni og hin ýmsu viðfangsefni markþjálfunar” segir María Lovísa, formaður Félags markþjálfa á Íslandi, en hún starfar sem stjórnendamarkþjálfi á alþjóðlegum markaði.  ,,Við bjóðum fólki að koma og hlusta á fjölmörg áhugaverð erindi og tökum sérstaklega á viðfangsefninu “árangur” og hvernig megi eflast og upplifa enn meiri árangur bæði í lífi og starfi”.

Dagurinn hefst á reynslusögum frá Reiknistofu Bankanna, Landsvirkjun og Marel og hvernig þau hafa náð árangri með markþjálfun. Síðan verða á boðstólnum frábær erindi markþjálfa um hin ýmsu viðfangsefni eins og til dæmis markþjálfun í tengslum við leiðtogaþróun, sjálfið, ákvarðanatöku, heildarhugsun og jákvæða sálfræði sem og markþjálfun í skólum og fyrir pólitísk framboð.  Að lokum stígur Edda Björgvins á stokk og greinir frá því að húmor sem stjórntæki sé dauðans alvara. Það verður því af nógu að taka og mörg erindi til að velja um og á milli. Miðar fast á miði.is og kostar aðeins 8.900.- inn á daginn.

María Lovísa segir Markþjálfunardaginn góðan dag til að fræðast og fá innblástur og líka til að fókusa svolítið á sjálfan sig og fá hugmyndir um leiðir til aukins árangurs. ,,Það fara allir kátir og inspireraðir frá okkur. Við lofum því” segir hún að lokum.

Hvað getur fjölskyldumarkþjálfun gert fyrir þig?

Markþjálfun er aðferð til að leiðbeina um mat á því hver þú ert og hver þú viljir vera. Þú hefur sennilega heyrt um þjálfun í íþróttum og þú gætir hafa heyrt um þjálfun í viðskiptum.

Fjölskyldumarkþjálfun fylgir sömu grundvallar hugtökum. Rétt eins og samningur við þjálfara gæti snúist um að aðstoð við að endurskipuleggja íþróttalið eða ráðleggingar til stjórnanda um tæknilega framkvæmd á samskiptum, þá mun fjölskyldumarkþjálfi vinna með öllum fjöldskyldumeðlimum við að finna út hver vandamálin séu og hvaða breytingar þurfi að gera til að ná fram betri stöðu á málum.

Fjölskyldumarkþjálfun er ætlað að halda deilum í eins miklu lágmarki og nokkur kostur er. Þegar við látum okkar tilfinningar ná yfirliði, geta rifrildi auðveldlega snúist upp í tilfynningalega skothríð. Meðan á markþjálfun stendur mun markþjálfi tryggja að öllum rifrildum sem upp koma á milli fjölskyldumeðlima, er haldið eins skipulögum, sanngjörnum og samkvæmt ákveðnum gildum, eins og mögulegt er - svo allir fái tækifæri til að segja það sem þeir þurfa.


Hvers vegna ættir þú að reyna fjölskyldumarkþjálfun?

Það er yfirleitt mjög óþægileg tilfynning að bjóða ókunnugum inn á sitt heimili til að fylgjast með því hvernig fjölskyldan lifir saman. Þetta er heldur ekki eðlilegt ástand og það er erfitt að hugsa til þess að einhver sé að dæma líf fjöldskyldunnar og jafnvel að einhverjum gæti verið kennt um það sem fór úrskeiðis.

 

Fjölskyldumarkþjálfarar dæma ekki eða eru að leita að því hver er ábyrgur. Þeir koma að þessu umhverfi til að setja hlutina í samhengi til að að allir geti séð hver staðan er og allir geti síðan lært að sætta sig við það hlutverk sem þeir gegna í umhverfinu. Þegar allir í fjöldskyldunni samþykkja að það þurfi að breyta, getur fjölskyldan farið saman að leggja grunn að leiðum til að taka á því saman með jákvæðum hætti.

 

Hvers vegna ættir þú að vilja prófa fjölskyldumarkþjálfun? Markþjálfun býður oft upp á hagnýta lausn á mjög persónulegum vandamálum. Átök innan fjölskyldunnar geta skaðað svo miklu meira en átök í vinnu. Þegar við veljum að stofna fjölskyldu, gerum við það venjulega af kærleika. Þessar fyrstu tilfinningar gætu hafa gleymst með tímanum við hefðbundnar raunir lífsins – en þær eru yfirleitt aldrei raunverulega horfnar og því er oft hægt að vinna að því að endurheimta þær.

 

Nokkrar ástæður fyrir því að leitað er til fjölskyldumarkþjálfunar:

 • Það þarf að leysa hjúskaparvandamál
 • Vinna og persónulegt líf er ekki í jafnvægi
 • Það eru vandamál í barnauppeldi
 • Það þarf að takast á við unglingavandamál
 • Verið er að takast á við líf eftir hjónaskilnað

 

Hjúskapar- og/eða fjöldskyldutengd vandamál

Það getur verið ótrúlega erfið vinna að vera í hjónabandi eða í sambandi við aðra persónu. Það er sama hversu ástfangin/n þú varst þegar þú sást maka þinn fyrir öllum þessum árum, þær tilfynningar geta byrjað að hverfa með tímanum. Það er ekkert eins líklegt til að slökkva þennan neista, eins og hefðbundið daglegt líf. Átök eru algeng í flestum hjónaböndum og samböndum – þegar verið er að eyða svona miklum tíma saman, getur verið erfitt að koma í veg fyrir ýmsar slæmar venjur og galla. Þegar börn blandast svo inn í umhverfið - geta átökin fengið aðra merkingu. Rifrildi, slagsmál og jafnvel þögn, getur allt sett sinn svip á tilfinninganlega stöðu barna og jafnvel haft áhrif á þeirra líf um alla æfi. Fjölskyldumarkþjálfi getur aðstoðað fjölskyldur við að takast á fjölbreytt vandamál, þar á meðal:

 1. Leyndarmál og svik
  Einhverskonar svik er líklega alvarlegasta málið til að takast á við í sambandi. Það getur verið ótrúlega erfitt að upplifa að félagi þinn, sá sem þú hefur valið að deila með lífi þínu og stofna fjölskyldu með, hefur verið þér ótrú/r á einhvern hátt. Það getur snúið þínu lífi á hvolf. Skyndilega er allt sem þú hélst að þú vissir, eithvað til að efast um. Þú byrjar á því að efast um eigin getu til að dæma fólk, þú ferð að spyrja sjálfa/n þig - var þetta mér að kenna ? Getur þú gert eitthvað til að stöðva þetta? Algengar gerðir af svikum eru:
 • Framhjáhald
 • Fjárhættuspil
 • Drykkja
 • Klámfíkn
 • Leyndar skuldir

Oft finnst pörum það ómögulegt að takast á afleiðingar af völdum svika í sambandi. Þegar aðili sem þú hefur treyst allt þitt líf, blekkir eða villir stórvægilega um fyrir þér, getur verið mjög erfitt að skapa aftur traust. Þessi tilfinning um öryggi, virðingu og kærleik sem þú hafðir einu sinni, getur þá fljótt breyst í vantraust, ofsóknarbrjálæði og reiði - auk sorgarinnar um “þann gamla góða aðila” sem þú hélst að þú vissir allt um, en er ekki þarna lengur.

Þótt margir velji að skilja eftir meiriháttar svik, reyna líka margir að finna leiðir til að takast á við svona vandamál vegna sinnar fjölskyldu.

Það er hægt að fá fjölskyldumarkþjálfa til að aðstoða fjölskyldur við bata frá svikum. Ólíkt ráðgjafa eða meðferðaraðila, reyna fjölskyldumarkþjálfar ekki að komast að rót þess, hvers vegna svik áttu sér stað. Hugmyndin um fjölskyldumarkþjálfun byggir ekki á því að finna sökudólg eða að ræða það sem gerðist. Hugmyndin um markþjálfun byggir á því að halda áfram með því að stilla upp nýjum grunni fyrir fjölskylduorkuna. Fjöldskylduorka er mynstur í samskiptum á milli fjölskyldumeðlima – þetta byggir á því að breyta hegðunarvanda sem hefur þróast og allir aðilar sjái ábyrgð og grundvöll fyrir framtíð fjöldskyldunnar í öðru ljósu.
Fjölskyldamarkþjálfar þróa þessa hluti með ákveðnum gagnvirkum æfingum og aðferðum til að endurreisa traust og hjálpa fjölskyldum við að komast frá stóráföllum.

 

2. Leiðindi
Ástríða og neisti sem pör njóta í upphafi getur slökknað hægt og rólega. Þegar pör stofna fjölskyldur saman, falla margir hlutir fljótt í venjubundinn farveg - húsverkin, skóli, vinna, að elda, sinna húsverkum, leikskólakeyrsla og svo framvegis - og þá byrja margir foreldrar að vanrækja eigin tengsl og eigin persónulegu þarfir.

Leiðindi er ein af stærstu ástæðum fyrir þvi að hjónaband brotnar niður. Annar aðilinn eða báðir fara þá að hugsa hvort það sé ekki meiri í lífinu en hefbundnar daglegar þarfir. Auðvitað er það þannig að þegar stofnað til fjölskyldu, er verið að færa ákveðnar fórnir. Það er ekki lengur hægt að fara óundirbúið í helgarferð til annarra landa, það er ekki hægt að fara út að djamma fram á morgun á hverju kvöldi, það er ekki hægt taka sér árs frí til að ferðast um heiminn. Það þarf að vinna, það þarf að greiða reikningana og það þarf að vera í kring um börnin, þar sem þau eru ekki nógu gömul til að vera ábyrg fyrir sjálfum sér.

Það er ótrúlega takmörkuð hugsun að halda að lífið hætti þegar við finnum lífsfélaga og eignumst börn. Það eru til milljón leiðir til að innleiða skemmtun og spennu í líf fjölskyldunnar, án þess að fórna hamingju sinni eða hamingju maka þíns og barna.

Ef þú heldur að gott væri að hrista aðeins upp í umhverfi þinnar fjölskyldu, gætirðu ráðið fjölskyldumarkþjálfa til að koma með nokkrar jákvæðar breytingar í þitt daglega líf og þinnar fjöldskyldu. Fjölskyldumarkþjálfun er sérstaklega árangursrík þegar fjölskylda er ósammála.

Dæmi: Annað foreldrið gæti stungið upp á spennanndi fjölskyldufríi í sumar til að skapa spennu og skemmtun, hitt gæti viljað spara peninga svo hægt sé að borga veðlánið á íbúðinni hraðar niður. Fjölskyldumarkþjálfi mundi þá aðstoða fjölskyldumeðlimi við að skilja hvorn annan og leggja grunn að málamiðlun á milli þess að takast á við hefðbundin framkvæmdaatriði í rekstri fjöldskyldunnar og þess að njóta lífsins.

Vandamál í umhverfi unglinga

Unglingsárin geta oft verið erfið fyrir alla fjölskylduna til að takast á við. Sambland af ofsafengnum hormóni, streitu í skóla, jafningjavandamálum og náttúrulegri baráttu fyrir eigin sjálfstæði getur fljótt snúist upp í mikla baráttu innan fjöldskyldunnar.

Það getur verið næstum því ómögulegt fyrir suma foreldra, að stjórna villtum unglingum. Þau eru ekki lengur litlu sætu börnin, þau eru alvöru fólk, með alvöru vilja og skoðanir. Ef ungling langar í raun að gera eitthvað – mun hann gera það.

Fjölskyldumarkþjálfi getur unnið með foreldrum og unglingum í því skyni að koma á:

 • Gagnkvæmri virðingu
 • Skýrari mörkum
 • Meiri skilningi

 

Fjölskyldumarkþjálfi mun aðstoða bæði unglinga og foreldra við að sjá lífið frá hvors annars sjónarhóli. Það er oft misskilningur sem veldur deilum í fjölskyldum.

 

Dæmi: Unglingur gæti verið að eyða öllum sínum tíma í að spila tölvuleiki inn í sínu herbergi, án þess að aðstoða nokkuð við húsverkin. Er hann í raun bara latur, geðillur og eigingjarn? Eru kannski aðrar undirliggjandi ástæður fyrir þessari hegðun hans? Kannski er hann að eiga við einelti í skólanum, kannski er hann óöruggur um sitt útlit eða kærastan hans er nýbúin að segja honum upp. Foreldrar sem mæta óeðlilegri hegðun unglinga með reiði, skapa bara ástand þar sem unglingurinn fjarlægist enn meira.

Frá sjónarhóli unglings, sem er stressaður og reiður sínum foreldrum sem stöðugt eru að segja honum að gera einhver heimilisstörf, finnst þeir greinilega bara vera að gera honum enn erfiðara fyrir. Unglingurinn getur ekki skilið að reiði foreldranna, er bara ein tegund af umhyggju. Oft birtum við skaðandi tilfinningar til að fela okkar innri tilfynningar, vegna þess að við vitum ekki hvernig á að bregðast við þeim.

Fjölskyldumarkþjálfi getur aðstoðað alla í fjöldskyldunni með þessar tilfinningar og kennt fjöldskyldunni hvernig þær hafa áhrif á hvert annað. Þegar samskiptaformið hefur verið bætt og misskilningurinn upplýstur, geta fjölskyldumeðlimir lært að vera heiðarlegri hvor við annan.

Jafnvægi í vinnu og fjöldskylduumhverfi

Er maki þinn að eyða of miklum tíma í vinnunni? Finnst þér þú vera vanrækt/ur og allar sameiginlegar byrðar og skyldur séu á þínum herðum, á meðan maki þinn kemur seint úr vinnu nótt eftir nótt?

Það getur verið mjög erfitt að sannfæra maka um að eyða meiri tíma heima. Jafnvel þótt þú getir dregið hann út í göngu seinnipartinn, þú geturðu séð að hugur hans er annarstaðar, því hann er að skoða tölvupóstinnhólfið í símanum á þriggja sekúndna fresti.

Að giftast og eignast börn þýðir ekki endilega að þú þurfir að setja starfsframa þinn og markmið í bið - þú þarft bara einfaldlega að setja ákveðið jafnvægi í þína vinnu og þitt persónulega umhverfi.

Fjölskyldumarkþjálfun er öflugt tól fyrir fjölskyldur sem eyða miklum tíma í sundur (t.d. foreldrar sem fljúga mikið erlendis fyrir fyrirtæki o.fl.) og gefur öllum fjöldskyldumeðlimum tækifæri til að vera í sama herbergi og setja nákvæmlega hvað þeim finnst. Eru börnin að óska þess að mamma sé meira heima um helgar til að fara með þeim í dagsferðir, í stað þess að fara á skrifstofuna? Finnst einhverjum að sumir ættu að vinna minna? Fundir í fjölskyldumarkþjálfun eru hannaðir til að ná fram skoðunum allra upp á yfirborðið, svo hægt sé að ná fram þokkalegri málamiðlun í umhverfinu.

 

Hversu lengi er þörf á fjölskyldumarkþjálfun?

Fundum í fjölskyldumarkþjálfun er ætlað að vera skemmtilegir, afslappandi og þægilegir fyrir alla fjölskyldumeðlimi. Markþjálfarar eru yfirleitt mjög sveigjanlegir þegar kemur að tíma, þannig að ef þú vilt kreista út klukkutíma markþjálfun eftir vinnu og áður en þú ferð í ræktina, er það yfirleitt hægt.

Fjöldskyldumarkþjálfun er yfirleitt hægt að aðlaga að umhverfi fjöldskyldu. Stundum gæti verið gott að taka 30-60 mínútur með hverjum fjöldskyldumeðlimi og síðan einn eða fleiri sameiginlega markþjálfunartíma til að stilla saman strengi.

Setja þarf markmið á sameiginlegum fjöldskyldumarkþjálfunarfundum um það sem allir eru sammála um að vilja ná fram og hvenær á að ná þeim markmiðum. Oft eru þetta lengri tíma markmið og þá þarf jafnvel að seja millimarkmið á leiðinni, til að ná heildarmarkmiðum til lengri tíma.

Þegar greining á stöðu er lokið og búið að ganga frá markmiðum og aðgerðaráætlun, þá væri gott að hittast reglulega til að fara yfir stöðuna og fylgjast með framgangi á aðgerðaráætlun. Þetta gæti verið gert vikulega, á tveggja vikna fresti eða einu sinni í mánuði. Einnig mætti hittast með styttra millibili til að byrja með og lengja síðan tímann á milli funda, þegar komið er í ljós að vel gengur með aðgerðaráætlun og millimarkmið.

Tekið saman af Guðmundur G. Kristinsson, markþjálfa hjá Þekkingarmiðstöðinni Virkaðu

Sjá fleiri greinar á http://gudmundurkristinsson.wix.com/markthjalfun#!blog/c1zmx

Óttinn

Hvað er ótti?  Hvaðan kemur hann?  Hvað hræðumst við?

Ótti kemur í mörgum myndum en ein gerð af ótta er óttinn við sársauka.
Við ímyndum okkur sársauka áður en við förum af stað og búum til ótta.

Óttinn við að missa af föstu venjum okkar.
Söknuður ef þú hættir í vinnunni eða ætlar að fara gera eitthvað sjálfur eða breyta matarvenjum eða vilt hætta að reykja eða hvað annað sem krefst breytinga á hegðun, þá verðum við óttaslegin.
Við förum að óttast að missa samstarfsfélagana, hádegisverðina, kaffisamtölin, öryggi launaseðilsins. Söknuður til yfirmanna eða deildarstjóra, sem þú gast leitað til, og þurfa ekki að hugsa sjálfstætt og geta látið segja þér hvað og hvernig þú eigir að leysa vandamál, söknuður eftir því að þurfa ekki að hugsa.

Óttinn við ferlið.
Svo er það ferlið.  Hvað ef ég þarf að vinna mikið til að geta borgað reikninga, hvað ef það verða hindranir á leiðinni, hvað ef ég verð að að hætta að borða pizzu, ég elska pizzu ég ætla ekki að hætta því, geta ekki tekið mínar 7 mínútur í reykingar til að slaka á, njóta og  útiverunnar 4 sinnum á dag.
Hvað ef ég skil ekki eitthvað, hvað ef ég klúðra. Hvað ef...

Óttinn við álit annarra.
Svo er það álit annarra.  Aðrir sem hræða mann og segja: ætlar þú að missa af föstum tekjum, missa af jólabónus og árshátiíðinni og svo framvegis. Hvað með reikningana?  Hvernig ætlar þú að greiða þá, hvernig ætlar þú að greiða fyrir íþróttaiðkun barna þinna? Ætlar að missa af þessu og hinu?
Hvað rugl er þetta hvað veistu þú um....

Óttinn við niðurstöðuna.
Hvað ef  niðurstaðan verður ekki eins og ég vildi, hvað ef grasið er ekki grænna hinu megin, hvað ef mér tekst þetta ekki, hvað ef ég hef ekki þetta í mér að vera sjálfstæður? Hvað ef ég vill svo ekki þetta.
Hvað ef, hvað ef, hvað ef, hvað ef.

Við erum líklegast flinkust að eyðileggja okkar eigin drauma á örskammri stundu, áður en haldið er af stað í ferlið. Óttinn étur okkur upp og við drögum okkur inn í skelina, vitstola af hræðslu.
Ef við hættum við allt og höldum áfram að gera það sem við höfum alltaf gert, hvað þá?

Við vitum samt sem áður betur innst í okkar hjarta. Hvenær hefur þú gert eitthvað fyrir sjálfan þig, og  ekki fyrir aðra. Reyndin er sú að ef við erum tilbúin að að hlusta á eigin sannfæringu og eigið hjarta þegar kemur að sjálfum okkkur þá munum við klára málið og ná árangri. Það er búið að margsanna þetta í gegnum tíðina, megin orsök þess að hlutir ganga ekki upp er að við gefumst upp eftir hafa verið slegin niður í nokkur skipti. Ef maður lærir ekki  af mistökum sínum og breytir aðferðinni þá endum við með sömu niðurstöðu, ekki satt?
Af hverju erum við svo fljót að hætta, við erum líklegast einu dýrin í dýraríkinu sem getum gefist upp án þess að deyja.

Leiðin til að losna við óttann er einföld, já ég sagði einföld.
Það eina sem þarf að gera er að láta hjartað ráða og sína eigin sannfæringu og vera tilbúinn til að takast á við sjálfan sig. Ef við viljum láta okkur líða vel, vera heilsuhraust, léttari, afla meiri tekna, ferðast um heim allan þá er alltaf einhver fórnarkostnaður í einhvern tíma, kannski 1-3 ár, misjafnt eftir verkefnum.  En hvað eru 3 ár í samanburði við þann tíma sem liðinn er í dag. Ef þú byrjar í dag á einhverju, einhverju sem þú ætlar þér að gera og verður búinn að ná markmiðinu eftir 3 ár, orðinn skuldlaus, ánægðari, heilsusamlegri, léttari, brosandi og farin að lifa þeim lífstíl sem þú vilt og þvi sem þú hefur ástríðu fyrir, eru þá 3 ár ekki þess virði?

Ef þú byrjar ekki dag og heldur áfram á sömu braut hvað þá? Hvar endar þú þá, ætlar þú bara að sætta þig við hlutina eða þitt hlutiskipti, við þinn hlut, sama hlut og allir hinir, vera í meðallagi ánægður, í meðallagi hraustur, en aldrei ánægður með tekjurnar, lífið, vinnuna.

Lífið er val og allir hafa val, sama hvað menntunarstig við höfum, hvernig uppeldið var osfv.  Allir sem hafa hugsun og geta tjáð sig eiga val, en spurningin er hvort við ætlum að láta umhverfið okkar stýra okkar vali.  Eiga aðrir að ákveða fyrir okkur hvað við vinnum við og hvaða tekjur við eigum að hafa?

Horfumst í augu við staðreyndir.  Sagt er að peningar séu ekki allt, en af hverju kvarta flestir undan því að hafa ekki nægilega mikið af peningum á milli handanna?

Gott fólk, við erum í raun öll eins, þeir sem ná raunverulegum árangri velta ekki mikið fyrir sér hvað aðrir hugsa um þá, þó svo að þeir hætti í „góðri vinnu“, hætta að borða pizzur, kjöt, hætta að reykja, þá erum við ekki að gefa upp á bátinn hitt eða þetta heldur erum við að eitthvað  læra nýja hluti og auka við okkur þekkingu, það kemur eitthvað  annað í staðinn fyrir hið „gamla góða“.

Útkomunni stýrum við sjálf.  Hvað þarf að leggja á sig til að ná markinu, hvað þarftu að vita, við hverja þarftu að tala?  Og kannski mikilvægasta atriðið er að þetta er þín útkoma. Teiknaðu framtíðina upp.
Taktu flugið og sjáðu framtíðina og hættu að búa til afsakanir og hræða þig inn í geymslu og láta loka á þig. Taktu afstöðu til lífsins þíns í dag og skoðaðu gaumgæfilega hvað það  er sem þú vilt raunverulega gera fyrir sjálfan þig. Hvar viltu búa, hvernig bíl viltu eiga, hve mikið viltu ferðast, hvaða heilsu viltu hafa, hvað viltu gefa til baka til samfélagsins, hvað viltu gera með fjölskyldunni,hvað viltu skilja eftir þig og svo framvegis.

Prófaðu að byggja hús með engar teikningar.

Vertu fyrirmynd fyrir hina sem eru í geymslunum, vertu sá sem  sem breytti lífi sínu, taktu fólk með þér í ferðalagið og njóttu.  Láttu engan skemma þína drauma. Sama hver fórnarkostaðurinn er, skiptu út vinum, finndu nýja, finndu fólk sem er að gera eitthvað uppbyggilegt, líkur sækir líkan heim.
Ekki bíða, byrjaðu í dag og byrjaðu smátt, skref fyrir skref, leið að þinni velgengi er ekki bein lína heldur hringtorg, hægri og  vinstri snú, upp og niður en að lokum greiðist leiðin og lífið verður skemmtilegt og eins og þú valdir að hafa það.

 Hækkaðu flugið og sjáðu heildarmyndina, ekki festast í stöðunni í dag. Bolaðu óttanum á braut og hugsaðu um sjálfan þig

Það verður alltaf einhver fórnarkostnaður en spurningin er hverju ertu tilbúinn til að fórna til að vera ánægður, hverju ertu að fórna í dag til verða EKKI ÁNÆGÐUR.

Greinina skrifaði Ingólfur Þór markþjálfi.

Bættu gæðum við líf þitt og starf

Janúar er oft tími endurnýjunar í lífi okkar og starfi. Nýjar áætlanir taka gildi og kappið er mikið. Margir kjósa að setja sér markmið í upphafi árs og stefna hátt og móta sér framtíðarsýn.

Markmið eru endurnýjun í sjálfu sér. Þau gefa til kynna þörf okkar fyrir breytingar og vilja til að gera hlutina öðruvísi. Markmið sem virka best eru jákvætt orðuð t.d. “ég ætla að skerpa fókusinn” í stað “ég ætla að hætta að vera óskipulagður” og “ég ætla að dreifa verkefnum betur” í stað “ég ætla að hætta að gera allt sjálf(ur)”. Með því að orða markmiðin á jákvæðan hátt erum við að draga athyglina að því góða, því sem vekur með okkur tilfinningu um eitthvað betra, aukin gæði, hvort sem er í einkalífinu eða starfi. Hættan felst í því að orða markmiðin á neikvæðan hátt. Það er algeng gryfja sem fólk fellur í þar sem hvatinn til breytinga liggur jú í því að við viljum hætta einhverju eða færast frá því sem ekki skilar árangri.

Fyrsta skrefið er að umorða markmiðið og setja fram í því þá niðurstöðu sem við viljum ná á jákvæðan hátt sbr. “ég ætla að skerpa fókusinn”. Þannig erum við þegar lögð af stað með viljann að vopni og niðurstöðuna í sjónmáli.

Næsta skref er tengt því fyrra og það er að líta á markmiðið og þau skref sem tekin eru sem gæðaviðbót við líf og starf. Það að bæta inn venjum og aðgerðum sem virka gerir það að verkum að minna pláss er eftir fyrir það sem ekki virkar. Þannig færum við athyglina smám saman frá því sem ekki virkar yfir á það sem virkar.

Mjög áhugaverðar rannsóknir hafa verið gerðar á heilastarfseminni og tengslum hennar við gæði í ákvarðanatöku. Þessar rannsóknir sýna m.a. að þegar við mætum hindrunum og ógnunum, hættum við að nýta þá hluta heilans sem finna skynsamar lausnir og förum í varnarstöðu sem veldur því að við tökum rangar ákvarðanir og lengjum leiðina að niðurstöðunni svo um munar. Með því að vera meðvitaður um að umorða hugsanir sínar yfir á jákvæðan hátt getum við tryggt að við séum betur í stakk búin til að taka ákvarðanir sem virkilega gagnast okkur og koma í veg fyrir að við gefumst upp.

Ég hvet ykkur sem þetta lesið til að prófa og ekki síst til að leita til markþjálfa. Markþjálfinn getur komið auga á þær hindranir sem felast í sýn okkar á verkefni hvers dags og þar með talin markmiðin. Hindarnirnar eru oftar en ekki huglægar og gera það að verkum að við náum ekki skýrri sýn á það sem við viljum og hvaða leiðir eru færar.

Megi árið 2014 verða þitt besta ár hingað til!

 

Greinina skrifaði Helga Jóhanna Oddsdóttir

Markþjálfi og mannauðsráðgjafi

Sjá meira á Carpediem.is

Er markþjálfun fyrir afreksíþróttafólk?

Markþjálfun er talin eiga erindi við og geta nýst flestum starfsgreinum á einn eða annan hátt, og getur því komið að gagni og góðum notum meðal breiðs hóps fólks.Markþjálfun er ekki aðeins fyrir þá sem vilja auka vöxt og árangur í lífi og starfi, og taka skref í átt að markmiðum sínum og framtíðarsýn, heldur einnig þá sem þegar hafa náð “toppnum” eða verulega langt á sínu sviði, því aðal áskorunin felst í því að halda sér við efnið eftir að takmarkinu hefur verið náð.
Við erum seint eða aldrei komin á þann stað þar sem við getum hallað okkur aftur í stólnum og hætt að vinna í okkur sjálfum. Þá eigum við það á hættu að sofna á verðinum og gleyma því að allt sem við veitum athygli vex og dafnar.
Galdurinn liggur því í meðvitundinni og því að halda áfram að sá fræjum og vökva þau.
Markþjálfun er viðvarandi samstarf og þróunarferli sem eykur vitund og ábyrgð fólks gagnvart eigin markmiðum. Aðferðin veitir mikilvæga umgjörð, aðhald og stuðning svo fólk geti haldið áfram að setja sér krefjandi markmið og ná árangri eftir að á toppinn er komið. Það er því bæði trú mín og reynsla að ólíkustu hópar geti grætt á markþjálfun, einnig afreks- og atvinnufólk í íþróttum sem hefur þegar náð langt á sínu sviði. Einn af þeim þáttum sem talinn er ráða úrslitum þegar kemur að árangri í íþróttum er að markmið séu gildismiðuð og stefnan skýr, og að unnið sé að markmiðunum bæði kerfisbundið og að heilum hug.
Markþjálfun er upprunalega sprottin út frá íþróttasálfræði. Því liggur beinast við að aðferðafræði markþjálfunnar sé notuð í vinnu með íþróttafólki. Markþjálfun er þó frábrugðin þeirri þjálfun sem íþróttamaðurinn þekkir frá hendi íþróttaþjálfarans, þó einkum að því leyti að íþróttaþjálfarinn er sérfræðingur eða kennari sem hefur sérhæfða þekkingu í tiltekinni íþrótt, á meðan markþjálfinn vinnur með einstaklingum á talsvert breiðara sviði. Í markþjálfun er það marksækjandinn sem er sérfræðingurinn í sambandinu, enda þekkir hann sitt eigið líf best, á meðan það kemur í hlut markþjálfans að nota aðferðir markþjálfunnar til að búa til jarðveg það sem persónulegur vöxtur getur átt sér stað. Í markþjálfun er komið inn á helstu svið lífsins og þau mörgu og mismunandi hlutverk sem við leikum í lífinu. Markþjálfi getur því unnið með íþróttamanni á sviðum sem tengjast íþróttinni ekki beint, en geta þó haft veruleg áhrif á getu hans og afköst. Venjur okkar eru samofnar og því getur t.d. svefnleysi haft áhrif á getu leikmanns í leik, rétt eins og frammistaða leikmanns í leik getur haft áhrif á svefn hans. Það getur því verið vandasamt að gera sér grein fyrir því hvort sé hænan og hvort eggið. Markþjálfun getur hjálpað fólki að finna betra jafnvægi milli ólíkra lífsþátta, t.d. milli fjölskyldu og frama.
Markþjálfun er frábrugðin öðrum aðferðum og eru það einkum þrír þættir sem gera hana svo sérstaka. Í einstaklingsmarkþjálfun mætast tveir jafningjar sem vinna saman á jafningjagrundvelli. Gagnkvæm virðing og traust skipta miklu máli ef árangur á að nást. Markþjálfi er bundinn trúnaði og því er innihald samtala trúnaðarmál. Þriðji þátturinn sem gerir markþjálfun sérstaka er það hlutleysi sem aðferðin býður upp á. Þegar kemur að markmiðasetningu er endurgjöf mikilvægur þáttur og þá getur það skipt sköpum að hún komi frá hlutlausum aðila sem hefur ekki neinum persónulegum hagsmunum að gæta. Við könnumst eflaust flest við það að fá ráðleggingar frá ástvinum sem vilja okkur það besta, en hafa þó öll ákveðnum hagsmunum að gæta gagnvart okkur og bjóða því ekki upp á hlutlausa sýn á hlutina. Í markmiðavinnu er einnig mikilvægt að hafa góða yfirsýn yfir heildarmyndina og þá getur verið verðmætt að fá önnur augu lánuð, því betur sjá augu en auga.
Skuli íþróttafólk vera að velta því fyrir sér hvort markþjálfun geti komið þeim að gagni er ágætt að komi fram að það að sækja sér markþjálfun jafngildir því ekki að eitthvað sé að eða að viðkomandi þurfi á hjálp að halda. Reyndar getur því verið öfugu farið og verið til marks um metnað og vilja til að gera enn betur. Að mínu mati, þótt ég sé eflaust heldur hlutdræg í þessu tiltekna máli, er það frekar til marks um hugrekki en veikleika að sækja sér þá aðstoð sem til boða stendur til að ná meiri árangri og komast nær draumum sínum. Það hefur sýnt sig að við erum mun líklegri til að standa okkur þegar við vitum að fylgst er með okkur, og einhverra hluta vegna eigum við auðveldara með að svíkja okkur sjálf en aðra – eins og t.d. markþjálfann okkar. En þegar öllu er á botninn hvolft skiptir það ekki sköpum hvort við stóðum okkur fyrir markþjálfann okkar eða okkur sjálf svo lengi sem takmarkinu var náð.
Greinina skrifaði Unnur María markþjálfi

Innri og ytri markþjálfun í fyrirtækjum

Innri (intern) og ytri (extern) markþjálfun í fyrirtækjum

Bakgrunnur minn sem Intern og Extern markþjálfi

Ég hef verið svo heppin að lifa og hrærast í NLP og markþjálfaheiminum í 15 ár.
Á þessum tíma hef ég  fengið tækifæri til að vinna í þremur löndum sem  „Intern og Extern“ -markþjálfi.  þetta þýðir að ég hef annars vegar verið ráðin inn/Intern í fyrirtæki sem Human resource/ HR- markþjálfi og verið sjálfstætt starfandi markþjálfi þar sem fyrirtæki hafa leigt mig inn til ákveðinna verkefna/ Extern.

Þetta hefur gefið mér innsýn og tækifæri til að skoða kosti og galla þess að vera „innanhúss“ og „utanhúss“ markþjálfi. Með þessum pistli langar mig að deila upplifun minni með ykkur og vona að þú sem markþjálfi fáir tækifæri til að skoða hvor vinnuaðferðin gæti hentað þér betur í vinnu. Fyrir ykkur sem sjáið um mannauðsmál, stjórnið og rekið fyrirtæki er von mín að þið fáið innsýn í hlutverk, kosti og galla þess að hafa fastráðinn markþjálfa og hins vegar að leigja inn utanaðkomandi markþjálfa.

Hvað er Intern markþjálfun?

Intern markþjálfun merkir að ég er fastráðin hjá fyrirtækinu, er á launaskrá og hef fasta vinnutímaskyldu. Ég er hluti af starfsfólkinu - á vinnufélaga, fæ föst laun og tilheyri oftast mannauðsdeildinni. Þetta gefur öryggi í vinnu, ég fæ sumarfrí og fastan vinnutíma sem gefur ákveðið frelsi utan vinnutíma. Það að hafa fastan vinnutíma  gæti orðið til þess  að ég ætti til að „flytja verkefni til næsta dags“ ef mér eru ekki sett ákveðin tímamörk...

Þegar ég vinn sem Intern markþjálfi hef ég góða innsýn í það sem er að gerast. Ég þekki starfsfólkið og er hluti af þeirri menningu sem ríkir á vinnustaðnum. Þar sem ég vinn oft þétt við hlið stjórnenda hef ég einnig innsýn í hvað er að gerast í almennri stefnumótun fyrirtækisins svo og  mannauðsmálum.  Þannig veit ég mikið um það sem er að gerast innan veggja fyrirtækisins og ég er fljót að komast inn í „verkefnið“ - um leið get ég haft „blind svæði“ þar sem ég missi af veikleikum sem eru tilstaðar og nýjum möguleikum og lausnum.

Hugsanlega tengist ég einum starfsfélaga betur en öðrum - „eignast vini í vinnunni“ – um leið og ég þarf að vera hlutlaus og „loyal“ bæði gagnvart starfsmönnum og stjórnendum. Ég ber alltaf ábyrgð í hlutverki mínu sem markþjálfi og þarf að gæta þess vel að halda trúnað og þagnarskyldu gagnvart þeim sem ég markþjálfa. Þetta getur skapað pressu þegar yfirmenn og stjórnendur ræða starfsmannamál þar sem ég ert þátttakandi í umræðunni – ég veit kannski eitthvað sem þeir vita ekki  og ég gæti misst vinnuna ef ég er of beinskeytt eða ef þeir halda að ég búi yfir upplýsingum sem þeir „eiga rétt á“ .

Hvað er Extern markþjálfun?

Extern markþjálfun merkir að ég er leigð inn í fyrirtækið, ég vinn sjálfstætt og ég stend fyrir utan innanhúss menningu fyrirtækisins. Stjórnendur og starfsfólk er ekki „félagar“ mínir, ég  vinn ein, án vinnufélaga og fæ einungis greitt fyrir það verkefni sem ég tek að mér og þann tíma sem ég nota í  verkefnið sem oft er afmarkaður – „verkið hefur tímamörk“. Afkoma mín byggir á að selja og fá verkefni - engin verkefni, engin laun, -innkoman er óörugg og ég þarf sjálf að standa straum af kostnaði sem fylgir því að vera sjálfstætt starfandi. Þetta veldur því  að ég er „alltaf“ í vinnunni, að markaðssetja mig og selja, undirbúa verkefni, með opinn síma og aðgang að sjálfri mér...

Fæ ég nóg að gera? Get ég tekið sumarfrí? Hef ég efni á að sleppa verkefnum?

Sem Extern markþjálfi hef ég enga innsýn í innri menningu fyrirtækisins ég stend fyrir utan heildina og er hvorki félagi stjórnenda eða starfsmanna. Það að ég veit lítið um það sem er að gerast í fyrirtækinu og hef engin persónuleg tengsl gefur mér ákveðið hlutleysi, ég  kem inn með „fersk augu“.  SemExtern markþjálfi get ég oft varpað ljósi á „blinda punkta“ sem geta verið hindrun í að ná settu marki. Ég get einnig verið beinskeyttari, farið dýpra og talað opinskátt um það sem ég upplifi því ég þarf ekki að hugsa um að ég gæti misst vinnuna eða félagstengsl við vinnufélaga.

Samstarf Intern og Extern markþjálfa

Mín upplifun er að Intern og Extern  markþjálfar ættu að tengjast hverju fyrirtæki.

Fyrirtæki sem hefur góðan Intern markþjálfa sem þekkir verðgildi fyrirtækisins og er tiltækur fyrir starfsfólkið, getur virkilega stuðlað að fækkun veikindadaga og fyrirbyggt brottfall af vinnumarkaði.  Intern markþjálfi  getur stuðlað að persónulegum vexti  starfsfólks, aukið afkastagetu þess og árangur með því að markþjálfa starfsmanninn til að finna innri styrk og getu og aukið eignarhlut í daglegum verkefnum.

Þegar starfsmaðurinn á kost á reglulegri markþjálfun aukast líkur á að Lífshjól - (grunnþættir í lífi okkar) hans/hennar sé í jafnvægi og þegar svo er skapast aukin VinnuLífsGleði... og allir vita hvað það gefur...

Extern markþjálfi er sem oftast heppilegri markþjálfi fyrir -leiðtogann þar sem hann er ekki tengdur starfsfólki og innra neti fyrirtækisins. Ef leiðtoginn velur að nota Intern markþjálfa gætu hagsmuna árekstrar átt sér stað og því velja stjórnendur og leiðtogar fyrirtækja sem hafa Intern markþjálfa oft að hafa sinn eigin Extern markþjálfa. Þetta gefur þeim færi á að fara dýpra í málefni fyrirtækisins og einnig taka upp persónulegri mál. Góður Extern markþjálfi  -getur virkilega stuðlað að vexti og þróun leiðtogans.  -Leiðtogi sem hlúir að eigin þroska er skrefi framar í leiðtogafærni og - að leiða aðra til vaxtar og þroska í starfi og  leik. Hann skapar Lærandi og þroskandi umhverfi...

Einnig er heppilegt að Intern markþjálfi hafi aðgang að eigin markþjálfa sem ekki tengist vinnustað hans því mikilvægt er að hlúa að markþjálfanum eins og öðru starfsfólki.

Extern markþjálfi er oft keyptur inn til að aðstoða Intern markþjálfa til að vinna að verkefnum í fyrirtækjum og gefur þetta samstarf að mínu mat tvöfalda virkni þar sem Inntern markþjálfi  hefur innsýn í innra skipulag fyrirtækisins og Extern markþjálfi kemur inn með „fersk augu“ ...

Í upphafi skal endinn skoða...

Loka orð mín verða að benda á mikilvægi þess að hafa „starfssamning“ á hreinu hvort sem um er að ræða Intern eða Extern markþjálfun. Þannig að báðir aðilar vita hvers þeir vænta af hvor öðrum og að starfslýsing sé á hreinu, sérstaklega þar sem um Intern markþjálfun er að ræða og hver útkoman á að vera.

Hver markþjálfi hefur sína vinnuaðferð og ætla ég ekki nánar út í samningsferli milli fyrirtækja og markþjálfa, mig langar þó að benda á að markþjálfun eða Coaching er tiltölulega nýr starfsvettvangur á Ísland og ég upplifi að enn sem komið er, eru fyrirtæki almennt ekki meðvituð um hvernig þau geta best nýtt þetta frábæra verkfæri til árangurs, breytinga, þróunar og þroska.

Hugsanlega liggur þessi óvissa hjá okkur markþjálfum?

Getur verið að fólk og fyrirtæki eigi erfitt með að átta sig á hvaða markþjálfa og hverskonar markþjálfa þeir eiga að hafa samband við eða ráða inn í fyrirtæki sitt?

Við markþjálfar auglýsum okkur í öllum regnbogans litum og þegar ég spyr „okkur“ hver er munurinn á; Live-Coach/ Lífsstíls-markþjálfun, Heilsu-markþjálfun, Holistic-markþjálfun, Transformational Life- Coaching, Stjórnenda- markþjálfa, Leiðtoga-þjálfun, HR-Coaching, Enneagram-Coaching og NLP-Coaching og eflaust hef ég gleymt einhverju... þá eru svörin oft mjög keimlík – MARKÞJÁLFUN J

Áherslumunurinn er oft að skilgreina sig í átt að einum ákveðnum markhóp – verða sérfræðingur á ákveðnu sviði og ætti það að auðvelda leitina að „réttum markþjálfa“...

Til að svo verði tel ég mikilvægt fyrir okkur markþjálfa að útbúa og birta  „innihaldslýsingu“ á þeim „titlum“ sem við notum.  Þegar við höfum það á hreinu er ég viss um að auðveldara verður fyrir „fólk og fyrirtæki út í bæ“ að finna „réttan markþjálfa“ í „rétt verkefni“ Intern og Extern.

Greinina skrifaði Hrefna Birgitta Bjarnadóttir, Alþjóðlega vottaður NLP-Enneagram kennari, HR-Coach, mannauðs- og starfsþróunarþjálfi
Sjá meira inn á www.bruen.is

Markþjálfun á 5 mínútum

Afreksfólk á hinum ýmsu sviðum notar sér þjálfara, ekki bara á meðan það var að vinna að því að komast í afreksflokk, heldur líka áfram til að vera stöðugt að ná betri árangri.

Á meðal stjórnenda í mörgum af Fortune500 fyrirtækjunum í Bandaríkjunum spyrja þeir ekki hvorn annan hvort þeir hafi markþjálfa heldur hver sé markþjálfi þeirra – svo sjálfsagt þykir það, enda þykir það að hafa markþjálfa vera merki um metnað, að viðkomandi ætli sér að ná meiri árangri en þegar hefur verið náð.

Það þarf því ekki að vera neitt að til að nýta sér markþjálfun, það segir bara til um að viðkomandi vilji verða betri.

Markþjálfun er þjálfun sem getur hjálpað fólki að ná auknum árangri, bæði í vinnu og einkalífi, hver svo sem sá árangur er sem stefnt er að.

Markþjálfun fer fram í gegnum ákveðna samtals- og spurningatækni þar sem markþjálfinn þjálfar einstaklinga til að finna sín eigin svör og leiðir til að komast þangað sem stefnt er að.

Markþjálfar hitta ýmist sína viðskiptavini augliti til auglitis eða tala við þá í gegnum síma eða Skype.

Úti í hinum stóra heima eru til stjórnendamarkþjálfar, lífsmarkþjálfar, eftirlaunaaldurs-markþjálfar, heilsu-markþjálfar og margt fleira en hér á Íslandi eru flestir markþjálfar annað hvort stjórnenda-markþjálfar eða lífs-markþjálfar.

Hér koma nokkrar spurningar og ráð um hvernig þú getur markþjálfað þig á 5 mínútum.

 1. Hvað er það sem þig langar eða hugur þinn stefnir til?  Ef þú fengir töfrasprota í hönd sem þú gætir sveiflað og þá yrði allt eins og þú vildir – hvað værir þú þá að gera, hvernig værir þú þá, þitt umhverfi, starf o.fl.?  Ekki takmarka þig með hugsunum um hvernig þú ætlir að láta þetta rætast – leyfðu þér að hugsa stórt og út fyrir öll box og þægindaramma – hvað er það sem þig raunverulega langar og hugur þinn stefnir til, bæði í vinnu og einkalífi?
 2. Þegar þú hefur svarað spurningu 1 getur verið gott að velta fyrir sér af hverju það er þetta sem þig langar til – hvaða þýðingu hefði það fyrir þig að láta þessar langanir, drauma og sýn  verða að raunveruleika?  Hversu mikið langar þig þetta?  Ertu tilbúin/-n til að fara í það ferðalag sem þarf til að komast í þessa stöðu?
 3. Hvaða leiðir getur þú farið á áfangastað?  Hvað hefur þú reynt áður og virkað vel fyrir þig?  Gætirðu reynt það aftur?  Hvaða styrkleika þín getur þú best nýtt á þessari leið þinni?  Hvernig mun þér líða þegar þú nærð á áfangastað?
 4. Hvað gæti hindrað þig í að komast á áfangastað?  Hvernig getur þú unnið þig í kringum hugsanlegar hindranir ef þær eru í formi peninga, tíma, annars fólks eða aðstæðna?  Ert þú kannski stærsta hindrunin?  Hvað er að halda aftur af þér? Hvað ætlar þú að gera í því?  Þú veist að þú ert fær um svo miklu meira en þú verður að trúa því og hætta að láta litlu leiðinlegu röddina í kollinum draga alltaf niður í þér (þú ert ekki ein/-n um að hafa þessa rödd!)
 5. Hvaða skref viltu taka núna?  Hvað væri mest um vert fyrir þig að gera núna?  Hvaða skref getur þú tekið núna strax til að færa þig nær takmarki þínu?  Hvað ætlar þú að gera þannig að þú þurfir ekki að hafa neina eftirsjá þegar kemur að sjötugsafmælinu þínu?

Kæri lesandi, þú lifir á tímum þar sem (nánast) allt er hægt, tækifærin eru óendanlega mörg og lífið er svo sannarlega fullt af tækifærum, byrjaðu strax að nýta þau!

Ef þú upplifir að lífið færi þér fleiri hindranir en tækifæri þá þarft þú að finna þínar leiðir framhjá þeim.

Reimdu því á þig hlaupaskóna og finndu þína leið að tækifærunum – ekki lenda í því að óska þess eftir ár að þú hefðir byrjað í dag, fleiri sjá eftir því sem þeir gerðu ekki en því sem þeir gerðu – ætlar þú að vera í þeim hópi?

Skrifað af Herdís Pálu Pálsdóttur, markþjálfa