Lög Félags Markþjálfa á Íslandi

1. gr.
Heiti félagsins er Félag markþjálfa á Íslandi. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
2. gr.
Félag markþjálfa á Íslandi er félag þeirra sem starfa að þjálfun á Íslandi eins og hún er skilgreind í 3. gr. Markmið félagsins er að kynna og standa vörð um starfsemi markþjálfunar á Íslandi, fræðilegan grunn greinarinnar og siðareglur.
3. gr.
Félag markþjálfa á Íslandi er félag þeirra markþjálfa á Íslandi sem hafa lokið viðurkenndu námi í markþjálfun. Nám markþjálfa skal vera viðurkennt samkvæmt alþjóðlegum eða evrópskum stöðlum og vera að lágmarki 60 kennslustundir. Allir þeir sem uppfylla fyrrgreindar kröfur geta sótt um inngöngu í félagið. Siðanefnd félagsins sér um að fara yfir allar umsóknir um félagsaðild. Ákvörðun siðanefndar um inngöngu nýrra félaga byggir á innsendum gögnum frá umsóknaraðila, um hvort menntunarskilyrði félagsins séu uppfyllt og einnig hvort starfsemi umsóknaraðila sé í samræmi við siðareglur félagsins. Siðanefnd áskilur sér rétt til að hafna umsókn um félagsaðild ef menntunarkröfum er ekki fullnægt. Einnig áskilur siðanefnd sér rétt til þess að vísa félagsmanni úr félaginu verði hann uppvís af því að starfa ekki í anda opinberra siðareglna og gilda félagsins, sem hvorki er félaginu né faginu í heild til sóma. Öllum ákvörðunum siðanefndar er hægt að vísa til stjórnar. Félagsmaður skal skila sönnum og uppfærðum skráningarupplýsingum um sig inn til félagsins og er stjórn og siðanefnd heimilt að kalla eftir staðfestingu á réttmæti upplýsinganna. Gerist félagsmaður uppvís að því að deila röngum upplýsingum um sína menntun, þjálfun, reynslu eða annað getur stjórn og siðanefnd hafnað félagsaðild og vísað viðkomandi úr félaginu.
4. gr.
Stjórn félagsins skal skipuð formanni, varaformanni og þremur öðrum meðstjórnendum, auk tveggja varamanna, sem kosnir eru á aðalfundi. Hlutkesti skal ráða ef atkvæði eru jöfn. Meðstjórnendur eru kosnir til tveggja ára í senn en þó er æskilegt að árlega gangi í það minnsta tveir aðilar úr stjórn. Nýr formaður, varamenn og tveir skoðunarmenn eru kosnir inn í stjórn til eins árs í senn. Ár hvert skal kjósa varaformann, sem sjálfkrafa tekur við af sitjandi formanni þegar formaður lýkur störfum. Er þetta gert til að tryggja að ávallt verði reyndur stjórnarmaður formaður félagsins. Viðtakandi formaður kemur þá sjálfkrafa inn til eins árs í senn en getur gefið kost á sér til áframhaldandi formannsstarfa að ári loknu. Sami félagsmaður getur setið að hámarki í tvö ár samfellt í formannssæti. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum, á fyrsta fundi sínum, og kýs sér ritara og gjaldkera. Starfsár stjórnar er milli aðalfunda og tekur ný stjórn við starfi eftir aðalfund. Fráfarandi stjórn gengur frá ársreikningi félagsins og leggur fyrir aðalfund. Sami félagsmaður skal eigi sitja lengur en fjögur ár samfellt í stjórn félagsins.
5. gr.
Stjórnin ber ábyrgð á daglegum rekstri og stjórnun félagsins, þ.m.t. fjármálum. Stjórn starfar samkvæmt umboði félagsmanna milli aðalfunda.

6. gr.
Aðalfund skal halda ár hvert ekki síðar en í apríl-mánuði. Til fundar skal boðað rafrænt með tölvupósti, eða bréfapósti, sendum á félaga samkvæmt félagaskrá, með a.m.k. fjórtán daga fyrirvara. Reikningar félagsins skulu þá liggja fyrir. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.
Dagskrá aðalfundar:
• Kosning fundarstjóra
• Kosning ritara aðalfundar
• Skýrsla stjórnar
• Reikningar síðasta árs skulu lagðir fram til samþykktar
• Kosning varaformanns félagsins
• Kosning stjórnarmanna og varamanna í stjórn félagsins
• Kosning skoðunarmanna
• Stjórn leggi fram starfs og fjárhagsáætlun ársins
• Önnur mál

Starfsár stjórnar félagsins er milli aðalfunda og reikningsár er almanaksárið.
Hver félagi í Félagi markþjálfa á Íslandi hefur eitt atkvæði við atkvæðagreiðslu í félaginu.
7. gr.
Félagsmenn skulu greiða árgjald til félagsins sem aðalfundur ákveður fyrir eitt ár í senn. Árgjöld gilda almanaksárið, frá áramótum til áramóta og eru innheimt með greiðsluseðli og/eða kröfu í netbanka þar sem fram kemur bæði gjalddagi og eindagi. Gangi nýr einstaklingur í félagið eftir 1. júlí lækkar félagsgjald fyrir það ár um 40%. Hafi félagi ekki greitt félagsgjöld á eindaga mun stjórn taka hann af félagaskrá og vefsíðum og vefsvæðum tengdum félaginu.
8. gr.
Formaður boðar stjórnarfundi eftir því sem þurfa þykir, en skylt er að boða til stjórnarfunda innan tveggja vikna þegar einhver stjórnarmanna krefst þess. Stjórnarfundir eru því aðeins lögmætir að þrír stjórnarmenn hið fæsta, eða varamenn í forföllum þeirra, sæki fundi.
Firmaritun félagsins er í höndum meirihluta stjórnar.
9. gr.
Breytingar á lögum félagsins má aðeins gera á aðalfundi. Breytingartillögur skal kynna í fundarboði og teljast þær því aðeins samþykktar að eigi minna en 2/3 fundarmanna greiði þeim atkvæði.
10. gr.
Um slit félagsins gildir það sama og um lagabreytingar. Fundur sá sem samþykkir á lögmætan hátt að slíta félaginu kveður á um hvernig ráðstafa skuli eignum þess til góðgerðamála. Þó skal sýslumanni falið að geyma eignir félagsins í tvö ár áður en þeim er ráðstafað.

Þannig samþykkt á stofn félagsfundi þann 12. desember 2006 og með breytingum samþykktum á aðalfundi 9. apríl 2014, 14. apríl 2015 og 19.apríl 2016.