Um markþjálfun

Hvað er markþjálfun (coaching)?
Markþjálfun (coaching) er aðferðafræði sem miðar að því að hjálpa einstaklingum við að finna sín markmið og upplifa þau. Henni er beitt á viðfangsefni tengd bæði vinnu og einkalífi. Markþjálfun má gróflega skipta upp í stjórnendaþjálfun (executive coaching) og lífsþjálfun (life coaching). Stjórnendaþjálfun miðar sérstaklega að því að bæta árangur stjórnenda en í lífsþjálfun er fremur unnið með viðfangsefni tengd einkalífinu.

Í markþjálfun gefst einstaklingum tækifæri til að skoða sjálfa sig, störf sín og hegðun í fullum trúnaði með markþjálfa sem til þess hefur hlotið sérstaka þjálfun. Um samtal er að ræða þar sem marksækinn (coachee) velur umræðuefnið en markþjálfinn (coach) stýrir samtalinu.

Hvaða hag hafa einstaklingar af markþjálfun?
Markþjálfun er þroskandi og skemmtilegt lærdómsferli. Markþjálfun getur hjálpað einstaklingi að ná betri árangri í lífi og starfi, getur bætt samskipti hvort sem er í vinnu eða einkalífi og aðstoðað einstaklinga við að ná markmiðum sínum og aukinni lífshamingju.

Hver er hagur fyrirtækis/stofnunar af því að starfsmenn fari í markþjálfun?
Með markþjálfun getur góður starfsmaður orðið enn betri og breytingar ganga betur fyrir sig. Markþjálfun getur verið leið til að bæta hæfni, vellíðan og ánægju starfsmanna en hún getur líka verið leið til að taka á vandamálum sem upp koma og eru tengd einstaklingum og samskiptum. Loks er markþjálfun mikið beitt til að vinna með einstaklingum og teymum í gegnum breytingar.

Hvernig velur maður markþjálfa?
Fyrst og fremst skiptir máli að hafa nokkra hugmynd um hverju maður vill ná fram með markþjálfuninni því markþjálfar sérhæfa sig í mismunandi verkefnum. Sumir vinna einkum með stjórnendum og aðrir einkum með þeim sem vilja ná markmiðum í einkalífinu. Að öðru leyti er gott að spyrjast fyrir og heyra í öðrum sem farið hafa til markþjálfa og alltaf er nauðsynlegt að spyrja markþjálfann hvar hann hefur hlotið þjálfun. Loks er mikilvægt að átta sig á því að það sem hentar einum, hentar ekki endilega öðrum. “Drauma” markþjálfi er sá sem kann að hlusta, spyrja réttu spurninganna og nær góðu sambandi við þig. Þess vegna er alltaf nauðsynlegt að spyrja eftir fyrsta tímann: Treysti ég þessari manneskju? Vil ég halda áfram að vinna með henni?

Hvað þarf til að verða markþjálfi?
Til að verða markþjálfi þarf einstaklingur að hafa lokið námi í markþjálfun sem viðurkennt er af alþjóðlegum eða evrópskum stöðlum og vera að lágmarki 60 kennslustundir. Þeir einstaklingar sem valið hafa að ganga í Félag markþjálfa á Íslandi hafa allir þá viðurkenningu á bak við sig.

Hver er góður markþjálfi?
Til að verða góður markþjálfi þarf markþjálfinn að að hafa tileinkað sér aðferðafræði markþjálfunar sem byggir á ákveðinni kjarnahæfni (core competences) og vinna eftir þeim leiðsagnareglum (guiding principles) sem kveðið er á um í faginu. Góður markþjálfi hjálpar marksækjanda að víkka sjóndeildarhringinn, fara út fyrir þægindarammann og koma auga á hvernig hægt er að yfirstíga mögulegar hindranir.

Hver er ástæðan fyrir auknum vinsældum markþjálfunar?
Ástæðan fyrir því að markþjálfun hefur fest sig í sessi á undanförnum árum beggja vegna Atlantshafsins og nýtur vaxandi vinsælda hér á landi er einfaldlega sú að hún skilar árangri. Þeir sem notið hafa góðrar markþjálfunar, hvort sem er í tengslum við störf sín eða í einkalífi segja hana framúrskarandi tæki til að ná markmiðum og breyta hegðun eða einfaldlega að hugsa lífið upp á nýtt.

Hvaða viðfangsefni eru hluti af markþjálfun?
Meðal viðfangsefna í stjórnenda- eða starfsmannaþjálfun má nefna einstaka þætti eins og að bæta hæfni til dæmis í því að halda fyrirlestra eða venja sig af slæmri hegðun. Önnur viðfangsefni geta verið hvernig á að taka á erfiðum starfsmannamálum eða vinna í gegnum starfstengdar breytingar. Stundum fara stjórnendur í markþjálfun til að bæta stjórnun sína almennt eða ræða um hvert þeir vilja stefna varðandi starfsframa.

Meðal viðfangsefna í lífsþjálfun má nefna  markmið varðandi peningamál, sambönd og samskipti, barnauppeldi, áhugamál, líkamsrækt eða hvers konar sjálfsþroska.

Af hverju markþjálfun?
Markþjálfun er fyrir þá sem hafa vilja til að vaxa, horfast í augu við sjálfa sig, hvort sem það er til að bæta það sem þarf að bæta, velta upp nýjum möguleikum, fá stuðning í erfiðum ákvörðunum eða einfaldlega að gefa sjálfum sér klapp á bakið fyrir það sem vel er gert. Með markþjálfun fá einstaklingar stuðning frá fólki sem hefur þjálfað sig í að hjálpa öðrum að finna sínar eigin lausnir. Markþjálfinn hefur ekki önnur markmið en þau að hjálpa viðskiptavini.